Ásgeir Jónsson skipaður nýr seðlabankastjóri

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur hefur verið skipaður nýr seðlabankastjóri.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur skipað dr. Ásgeir Jónsson í embætti bankastjóra Seðlabanka Íslands frá og með 20. ágúst nk., til næstu fimm ára. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.

Hæfnisnefnd hafði metið fjóra umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embættinu, en þeir voru auk Ásgeirs þeir Arnór Sighvatsson, Gylfi Magnússon og Jón Daníelsson.

Að lokinni skoðun forsætisráðherra og að teknu tilliti til frammistöðu umsækjenda í viðtölum og efni umsagna um þá var það mat ráðherra að Ásgeir Jónsson væri hæfastur umsækjenda til að gegna embætti seðlabankastjóra.

Í rökstuðningi fyrir vali forsætisráðherra segir m.a.:

„Í viðtali við Ásgeir sýndi hann afburða þekkingu á verkefnum og stjórntækjum Seðlabankans. Í umsögnum um Ásgeir kom m.a. fram að hann væri skarpgreindur, víðsýnn, afkastamikill, ritfær, frjór í hugsun, mannasættir og góður í mannlegum samskiptum. Að mati umsagnaraðila hefur Ásgeir reynst farsæll sem stjórnandi, verið vel liðinn, með skýra sýn, sanngjarn en fylginn sér, úrræðagóður og fljótur að setja sig inn í hluti. Hann njóti virðingar og hafi lyft þeim einingum sem hann hefur stýrt upp á hærra stig.“

Ásgeir Jónsson lauk doktorsprófi í hagfræði frá Indiana University í Bandaríkjunum árið 2001 með alþjóðafjármál, peningamálahagfræði og hagsögu sem aðalsvið. Doktorsritgerð Ásgeirs var um sveiflujöfnun yfir skamman tíma í litlu, opnu hagkerfi. Hann starfaði við hagfræðideild Háskóla Íslands frá 2004, fyrst sem lektor og síðan dósent. Hann hefur verið deildarforseti við hagfræðideild frá 2015. Samhliða störfum sínum við Háskóla Íslands hefur hann meðal annars verið efnahagsráðgjafi Virðingar og Gamma.

Ásgeir hefur gegnt öðrum ábyrgðarstörfum, meðal annars sem formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnu og verið forstöðumaður í greiningardeild og aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka á árunum 2004–2011. Á árunum 2000–2004 var Ásgeir sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun og samhliða því stundakennari við Háskóla Íslands.