ASÍ sakar Skúla Mogensen um kaldar kveðjur: Svindli verður mætt af fullri hörku

Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu, undir yfirskriftinni: NEI TAKK, Skúli Mogensen, hvar brugðist er við ummælum hans á fyrirlestri frumkvöðla í Startup Iceland í gær, þar sem hann sagði nauðsynlegt að byggja nýtt flugfélag WOW air á blöndu af íslenskum og erlendum starfsmönnum, þar sem launakostnaður og regluverk hér á landi væri of íþyngjandi.

„Skúli Mogensen lýsti því í kvöldfréttum RÚV í gær að kjarasamningsbundin laun og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði hafi verið of íþyngjandi fyrir rekstur flugfélagsins WOW. Þetta eru afar kaldar kveðjur þar sem WOW naut velvildar starfsmanna sinna og í raun samfélagsins alls. Það voru ekki mannsæmandi laun sem settu fyrirtækið á hausinn! Að koma núna og kenna starfsmönnum og launakjörum þeirra um gjaldþrotið er allt annað en stórmannlegt og kaldar kveðjur til starfsfólksins sem stóð með félaginu þar til yfir lauk,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.

„Á íslenskum vinnumarkaði gilda lög, reglur og kjarasamningar sem tryggja velferð launafólks. Þetta vita flestir þeir sem hafa staðið í atvinnurekstri. Undirstaða velferðar okkar sem þjóðar er þetta skipulag og kröftug barátta gegn undirboðum á vinnumarkaði. Við köllum þetta norrænt velferðarsamfélag. 

Fyrirtæki sem eru tilbúin til að starfa á þessum forsendum eru velkomin – önnur ekki. Þeir sem ætla að vera með í leiknum verða að spila eftir reglunum. Hinum sem ætla að svindla er mætt af fullri hörku. 

Hugmynd um nýtt lággjaldaflugfélag sem skapar sér samkeppnisforskot með því að troða á launafólki er vond hugmynd. Íslensk verkalýðshreyfing mun aldrei samþykkja slíkt,“ segir Alþýðusambandið ennfremur.