Áslaug Arna og Brynjar berjast um stólinn — verður Birgir málamiðlunin?

Brynjar Níelsson, lögmaður og fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Staðan er þannig nú, að Bjarni Benediktsson myndi helst vilja gera Áslaugu Örnu [Sigurbjörnsdóttur, ritara flokksins] að dómsmálaráðherra, en eftir ólguna undanfarið vegna orkupakkans er líklegt að hann meti það ógerlegt. Brynjar Níelsson nýtur mests fylgis til þess að taka við, en það kæmi ekkert á óvart þótt Bjarni þráist við að gera hann loks að ráðherra, sem væri auðvitað löngu tímabært, og freisti þess að gera tillögu um Birgi Ármannsson, formann þingflokksins, sem málamiðlun.“

Þetta segir áhrifamikill þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Viljann, en nú þegar deilan um þriðja orkupakkann er að baki, beinist kastljósið að komandi ríkisráðsfundi sem boðaður hefur verið á Bessastöðum á föstudag. Þar er ætlunin að skipa nýjan dómsmálaráðherra.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálftstæðisflokksins.

Þegar Sigríður Á. Andersen sagði af sér sem ráðherra vegna Landsréttarmálsins tók Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir við, en strax var gefið út að það væri tímabundin ráðstöfun. Bjarni Benediktsson hefur nú staðfest að komið sé að varanlegri lausn á málinu og er búist við að samtöl hans við þingmenn flokksins um nýjan ráðherra hefjist í vikunni.

Heimildamenn Viljans benda á að Sjálfstæðisflokkurinn logi í heimiliserjum, fylgið sé í sögulegu lágmarki og Bjarni sé sakaður um að tala einkum við þröngan hóp ungra karla og kvenna sem áberandi eru á samskiptamiðlum á borð við Instagram. Í þeim hópi eru varaformaðurinn Þórdís Kolbrún og ritarinn Áslaug Arna, en minna fer fyrir almennum þingmönnum flokksins í innsta hring formannsins.

Brynjar er sagður sækja það fast að verða dómsmálaráðherra nú. Í nýlegri könnun Bylgjunnar kom fram, að hann naut mests stuðnings allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í embættið. Margir innan flokksins eru enn ósáttir við að Sigríður Á. Andersen hafi þurft að taka pokann sinn og vilja fá Brynjar í hennar stað. Hann sé einn reyndasti lögmaður þjóðarinnar, fv. formaður Lögmannafélagsins og hafi alla burði til að valda þessu erfiða embætti.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari flokksins og formaður utanríkismálanefndar.

Stuðningsmenn Áslaugar Örnu benda á að mikilvægt sé að horfa til kynjahlutfalla í ríkisstjórninni, auk þess sem hún sé ritari flokksins. Þá sé hún lögfræðingur og hafi ekkert gefið eftir í hörðum slag um orkupakkann sem formaður utanríkismálanefndar. Á móti er bent, að hún hafi litla sem enga starfsreynslu utan flokks eða þings og þurfi að öðlast meiri reynslu áður en lyklavöld í ráðuneyti fari til hennar.