
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tilkynnt félögum sínum í þingflokknum, að hann styðji ekki þingsályktun utanríkisráðherra um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Er hann fyrsti þingmaður stjórnarliðsins til að lýsa andstöðu við orkupakkann eftir að þingsályktunin var lögð fram á þingi.
Viljinn hefur þetta eftir öruggum heimildum, en sjálfur vildi Ásmundur ekki tjá sig um málið á þessu stigi. Hann hafði fyrr í vetur lýst yfir miklum efasemdum um málið og framlagning þess í þinginu hefur ekki breytt þeirri afstöðu hans.
Mikil andstaða virðist við innleiðinguna almennt í þjóðfélaginu, ef marka má umsagnir sem borist hafa utanríkismálanefnd Alþingis sem hefur málið nú til meðferðar. Þannig hefur Alþýðusamband Íslands lagst gegn afgreiðslu þess, auk þess sem formaður VR og formaður Eflingar hafa lýst andstöðu við það.
Á móti kemur að svo virðist sem allgóður þingmeirihluti sé fyrir afgreiðslu þess, þótt enn liggi ekki fyrir hvort einhverjir þingmenn Framsóknar og Vinstri grænna lýsi andstöðu við það. Miðstjórn Framsóknarflokksins hefur hafnað innleiðingu orkupakkans og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og samgönguráðherra, sagði á dögunum að mistekist hefði að sannfæra þjóðina um ágæti innleiðingarinnar.
Formenn Viðreisnar og Samfylkingarinnar hafa boðið ríkisstjórninni að styðja málið svo unnt sé að koma því í gegn, en auk þess virðast þingmenn Pírata hlynntir því.
Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa lýst sig alfarið mótfallna innleiðingu þriðja orkupakkans.