Ásmundur hreinsaður af ásökunum Pírata um þjófnað: „Mikill léttir“

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Það er mikill léttir að ásökunum Björns Leví Gunnarssonar alþingismanns um þjófnað er vísað frá. Málið hefur reynt á en nú er því lokið og mun ég og fjölskylda mín horfa fram á veginn og fyrirgefa þeim sem hafa brigslað mér um slíka óhæfu sem þjófnaður er. Vonandi að það verði til þess að það fólk sjá birtu lífsins,“ segir Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Forsætisnefnd Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að Ásmundur hafi gerst sekur við siðareglur þingmanna með því hvernig hann hefur fengið endurgreiddan aksturskostnað sem þingmaður. Þá er kröfu um almenna rannsókn hafnað, þar sem ekkert hafi komið fram sem réttlæti slíkt.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata hafði sent forsætisnefnd erindi og farið fram á rannsókn á akstursgreiðslunum til Ásmundar og þjófkennt hann.

„Þá er það niðurstaða forsætisnefndar að sú athugun sem frem hefur farið á endurgreiddum aksturskostnaði ÁsF ásamt skýringum hans leiði til þess að ekkert hafi komið fram sem gefi til kynna að hátterni hans hafi verið andstætt siðareglna fyrir þingmenn,“ segir í bréfi forsætisnefndar.

Endurgreiddi aksturspeninga vegna þáttagerðar fyrir ÍNN

Ásmundur hafði greint frá því í bréfi til nefndarinnar, að hann hefði sjálfur tekið ákvörðun um endurgreiðslu á aksturskostnaði upp á 178 þúsund krónur til Alþingis, þar sem umrædd ferðalög hefðu einnig tengst þáttagerð fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN.

Eins og margir aðrir stjórnmálamenn, þar á meðal þingmenn, sinnti Ásmundur þáttagerð fyrir ÍNN og þáði ekki laun fyrir. 

„Ákveðið var að þættir mínir væru teknir víða í kjördæmi mínu og ræddi ég við áhugaverða viðmælendur, kynnti þá og kjördæmið í leiðinni. Ég leit þannig á að ég væri að slá tvær flugur í einu höggi; nýta ferð í þágu þingstarfa til að vinna að þáttagerðinni samhliða,“ segir hann í bréfi sínu.

Hann kveðst því hafa ákveðið að greiða skrifstofu Alþingis það til baka og hafi það verið gert í febrúar á þessu ári. Hann telji að þetta geti orkað tvímælis og vilji gera rétt „til þess að enginn vafi léki á því að rétt væri að staðið, enda vil ég alltaf koma rétt og heiðarlega fram.“

Hér má kynna sér afgreiðslu forsætisnefndar á málinu nánar.