Ásmundur: „Svo aldrei framar Íslandsbyggð sé öðrum þjóðum háð“

Ásmundur Friðriksson (standandi á myndinni). Við hlið hans er Guðmundur Ingi Kristjánsson./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Þriðji orkupakkinn var samþykktur nú áðan sem þingsályktun með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða þingmanna, eins og Viljinn hefur skýrt frá.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var eini þingmaður stjórnarliðsins sem sagði nei í málinu.

Það gerði hann með eftirfarandi atkvæðaskýringu:

„Það liggur fyrir að ég mun aldrei stíga neitt það skref sem getur haft minnstu áhrif á sjálfsákvörðunarrétt okkar Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar.

Baráttan fyrir fullveldi og eigin ákvörðunarrétti var löng og ströng.
Með leyfi forseta.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslandsbyggð
sé öðrum þjóðum háð.

Hér ættum við að draga strik í sandinn í þessu máli, áhættan er ekki þess virði að halda áfram.

Ég tek undir með stórum meirihluta þjóðarinnar þegar ég segi nei.

Ég mun aldrei taka áhættu fyrir Ísland, Ég segi nei við þriðja orkupakkanum og tengdum málum.“