Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur kveðst fagna mjög frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um hatursorðræðu. Hann segir ástandið orðið slíkt hér á landi, að skoðanir virðast almennt vera bannaðar og varla sé hægt að tjá sig á kurteisan hátt um þjóðfélagsmálefni af ótta við kæru um hatursorðræðu og í kjölfarið mannorðsmissi eða jafnvel að starfsöryggi fólks sé ógnað. Forpokun nútímans minni fremur á 19. öldina en þá 21.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vill breyta lögum þannig að 233. gr. almennra hegningarlaga sem tekur á hatursorðræðu verði þrengd.
Í dag segir í almennum hegningarlögum að hver sá sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna geti átt sekt eða fangelsisrefsingu yfir höfði. Samkvæmt lagafrumvarpinu er gert að skilyrði að háttsemin verði að vera til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun svo að hún varði við lög.
„Við núverandi aðstæður, þar sem félagslegur rétttrúnaður í bland við þöggunartilburði og augljósa þörf margra til að smána pólitíska andstæðinga sína og óvini opinberlega, auk alvarlegra ritskoðunartilburða góða fólksins og vel heppnaða framkvæmd Jafnréttisstofu við að rífa niður niður nektarmálverk í opinberum byggingum, hef ég miklu meiri áhyggjur af tjáningar- og skoðanafrelsi okkar en því að einhverjar „vondar“ en í sjálfu sér sakleysislegar skoðanir – stundum jafnvel hlægilegar eða fáránlegar – stuði einhverja minnihlutahópa í þjóðfélaginu,“ segir Guðbjörn.
„Í þessu sambandi minni ég á ofsóknir gegn Birgittu Haukdal og barnabók hennar eða þegar málverk Gunnlaugs Blöndal voru rifin niður í Seðlabankanum, en í alvarlegri tilfellum uppsagnir háskólastarfsmanna og grunnskólakennara út af ummælum, sem grundvallast á ákveðnum skoðunum viðkomandi en ekki hatursorðræðu, þar sem ekki var verið að ógna minnihlutahópum eða líkja þeim við nasista eða kalla þá rasista eða öðrum illum nöfnum. Tjáningarfrelsið er dýrmætt og fórnir voru færðar til að öðlast það, berum það í minni,“ segir Guðbjörn ennfremur.