Átakshópur verður skipaður um vanda bráðamóttökunnar

Bráðamótaka Landspitalans Fossvogi.

Átakshópur verður skipaður til að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttöku Landspítala og hrinda þeim í framkvæmd. Þetta er sameiginleg niðurstaða fundar heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítalans sem haldinn var í heilbrigðisráðuneytinu í dag. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Landlæknir afhenti heilbrigðisráðherra í gær minnisblað varðandi stöðuna og var efni þess kynnt fyrir forstjóra sjúkrahússins og þeim stjórnendum sjúkrahússins sem sátu fundinn í dag auk hans.

Embættið beindi fimm tillögum til heilbrigðisráðherra varðandi bráðamóttöku Landspítalans í minnisblaðinu. Sú fyrsta snýr að því að leysa úr bráðum vanda með tafarlausu samráði og aðgerðum.

  1. Gripið verði til samráðs og aðgerða án tafar til að leysa brýnasta vanda bráðamóttöku þannig að sjúklingar þurfi ekki að vistast á göngum bráðamóttökunnar.
  2. Vinnu stjórnvalda er lýtur að mönnun verði hraðað sem mest. Minnt er á skýrslu Ríkisendurskoðunar í því sambandi og hve mikilvægt er að ganga frá kjarasamningum við hjúkrunarfræðinga og aðrar heilbrigðisstéttir.
  3. Fram fari greining á hvaða áhrif opnun hjúkrunarrýma í ár, sem og annarra úrræða er varðar þjónustu við aldraða, hafi inn í þennan vanda og mat á hvort bæta þurfi um betur, t.d. með því
    að fela til þess bærum aðilum að reka fleiri hjúkrunarrými til bráðabirgða.
  4. Skoðað verði hvernig húsnæði bráðamóttöku muni duga til lengri tíma eða þar til nýr spítali rís. Skoðað verði m.a. hvort bæta þurfi við húsnæði deildarinnar eða hvort enduropna ætti bráðamóttöku eða Hjartagátt við Hringbraut.
  5. Ljóst er að skiptar skoðanir eru milli forstjóra og yfirvalda um fjárþörf og rekstur Landspítala. Brýnt er að vönduð greining fari fram þannig að hægt sé að minnka þann ágreining. Lagt er til að fyrirtækið McKinsey & Company verði fengið til að endurtaka úttekt á Landspítala líkt og gert var árið 2016 þegar svipaður ágreiningur var uppi. Þar voru fjölmargir þættir skoðaðir: áætlanagerð og afköst, rekstrarhagkvæmni og framleiðni vinnuafls, vinnuafl og mönnun, gæði og hlutverk í heilbrigðiskerfinu auk þess sem lagðar voru fram tillögur að aðgerðum. Auk þess var umfjöllun um útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi í skýrslunni. Gagnlegt væri að sjá hvernig
    mál hafa þróast á þessum árum, hvernig viðbótarfjármagn sem spítalinn hefur fengið hefur nýst og hvort fjármögnun hans sé í takti við verkefni. Þá er brýnt að því verkefni að taka upp sk. framleiðslutengda fjármögnun Landspítala, DRG, verði hraðað.