Atkvæði greidd um breytingar á internetinu á morgun

Tugir þúsunda Þjóðverja mótmæltu um helgina áformum ESB um breytingar á höfundarrétti sem þeir telja að ógni miðlun á netinu. Hópar fólks komu saman í Berlín (15.000 manns), München (40.000 manns) og öðrum borgum undir slagorðum eins og þessu: Save the Internet – Bjargið internetinu.

Greidd verða atkvæði um málið í ESB-þinginu á morgun, þriðjudaginn 26. mars. Vilja mótmælendur að tillögum um að þrengja rétt manna til að miðla efni á netinu með vísan til höfundarréttar verði hafnað.

Verði tillögurnar samþykktar ber YouTube og öðrum netmiðlum að nota sjálfvirkar síur til að ýta á brott efni sem dreift er ólöglega.

Þá er markmiðið einnig að knýja netfyrirtæki til að greiða fréttastofnunum fyrir endurbirtingu eða tengingu við efni þeirra. Fréttastofnanir eins og t.d. AFP hafa hvatt til að þessar reglur verði settar.

Rök þeirra eru að fyrirtæki eins og Facebook og Google hafi milljarða í tekjur af auglýsingum sem tengjast fréttum en útgefendur fréttanna fái ekkert í sinn hlut.

Mótmælendur og netfyrirtæki eins og Google segja að breytingin takmarki frelsi til miðlunar upplýsinga og skaði litla efnismiðlara á netinu.

Þýski Pírataflokkurinn hefur verið í forystu andmælenda gegn breytingunum. Einnig var efnt til mótmæla í Austurríki, Póllandi og Portúgal.

Rúmlega 260 þýskir blaðamenn og ljósmyndarar skrifuðu undir grein sem birtist föstudaginn 22. mars þar sem ESB-þingið var hvatt til að samþykkja tillöguna.

Í Póllandi birtu rúmlega 200 kvikmyndagerðarmenn opið bréf til ESB-þingmanna og hvöttu þá til að samþykkja breytinguna í von um að það mundi koma reglu á hvernig efni þeirra væri nýtt af YouTube og öðrum.

Af vardberg.is, birt með leyfi.