Átta á Landspítala með COVID-19, smitin á Eir orðin sex

Bráðamótaka Landspitalans Fossvogi.

33 smit af COVID-19 greindust hér á landi sl. sólarhring og er nýgengi veirunnar hér á landi nú komið yfir 130, sem er með því mesta í Evrópu nú um stundir. Enn fjölgar innlögnum á Landspítalann, átta hafa nú verið lagðir inn á spítalann vegna veirunnar og þar af eru tveir á gjörgæslu. Einn er á öndunarvél.

Þetta er mikil breyting á skömmum tíma, því sl. föstudag voru tveir inniliggjandi með veiruna á Landspítala.

Ríkisútvarpið greinir frá því að sex smit hafi nú greinst á Hjúkrunarheimilinu Eir, tveir starfsmenn og fjórir íbúar. Enn séu einkenni allra lítil sem engin og hefur verið útbúin sérstök COVID-deild á heimilinu vegna þessa og vistmenn í einangrun fluttir þangað.

Næsti upplýsingafundur Almannavarna verður á morgun, strax eftir setningu Alþingis, en ekki á hefðbundnum tíma.