Samtök atvinnulífsins hafna því með öllu að vinnuveitendur beiti starfsmenn sína þrýstingi í aðdraganda verkfallsaðgerða og í tengslum við atkvæðagreiðslur um vinnustöðvanir og óheimilt sé að upplýsa starfsfólk um stöðu og horfur í fjárhags- og atvinnumálum í fyrirtækinu.
„Hið rétta er að atvinnurekendum er það skylt,“ segir í yfirlýsingu á vef samtakanna.
„Samkvæmt lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum nr. 151/2006 er skylt í fyrirtækjum þar sem að jafnaði starfa a.m.k. 50 starfsmenn, að upplýsa fulltrúa starfsmanna um „horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað“, eins fram kemur í 4. gr. laganna. Ekkert er því til fyrirstöðu að veita þessar upplýsingar öllum starfsmönnum, kjósi fyrirtæki að gera það.
SA árétta í því sambandi að atvinnurekendum er óheimilt að hóta starfsmönnum uppsögn eða öðrum viðurlögum taki þeir þátt í atkvæðagreiðslu um verkfall, sbr. 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Í ljósi yfirstandandi kjaradeilu er mikilvægt að atvinnurekendur gæti hófs í yfirlýsingum um hugsanlegar afleiðingar verkfalla og virði í hvívetna rétt starfsmanna til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni,“ segir þar jafnframt.