Auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni

Á fundi formanna stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi í gær var ákveðið að afgreiða tvö frumvörp um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands til samráðs við almenning á samráðsgátt stjórnvalda. Annars vegar er um að ræða frumvarp um umhverfisvernd og hins vegar frumvarp um auðlindir í náttúru Íslands en vinna við þessi tvö frumvörp er komin á þann stað að rétt þykir að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þeirra.

Tillögurnar hafa verið birtar í samráðsgáttinni og geta allir sem vilja skilað inn umsögn út júní. 

Lagt er til að ný grein bætist við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem hljóðar svo:

„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“

Þá er einnig lagt til að sett verði inn í stjórnarskrá ákvæði um umhverfið, að allir landsmenn beri sameiginlega ábyrgð á því að vernda náttúru og umhverfi og að verndin eigi að grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að þetta væru mikil tíðindi og hún kvaðst vonast til þess að unnt verði að afgreiða þessa þætti breytinga á stjórnarskránni á þessu þingi og að afloknum næstu kosningum.

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, sem sæti átti í Stjórnlagaráði, er hins vegar lítt hrifinn á fésbókinni:

„Þessi tillaga um auðlindaákvæði er yfirgengilegt hneyksli, svo miklu verri er hún en tillaga Stjórnlagaráðs sem 83% kjósenda lýstu sig samþykka í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Orðin “sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar” eru farin. Orðin “gegn fullu gjaldi” eru farin. Orðin “Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli” eru farin. Ég gæti haldið áfram,“ segir hann.

Forsætisráðuneytið vekur athygli á því í tilkynningu, að samráðsgátt stjórnvalda er einungis eitt af þeim verkfærum sem nýtt verða til samráðs við almenning í stjórnarskrárvinnunni en að auki mun fara fram skoðanakönnun og rökræðukönnun síðar á árinu 2019.

Frumvörpin verða til umsagnar í samráðsgáttinni til 30. júní nk.

Drög að stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd

Drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands