Sameiginlegur fundur Landsstjórnar og þingflokks Framsóknarflokksins, sem fór fram um helgina, leggur höfuðáherslu á þá stefnu flokksins að auðlindir séu þjóðareign. Því mun Framsóknarflokkurinn fylgja því fast eftir á kjörtímabilinu að slíkt ákvæði verði sett í stjórnarskrá landsins, að því er segir í yfirlýsingu.
Þetta gerist á sama tíma og þingmenn flokksins hyggjast greiða innleiðingu þriðja orkupakkans atkvæði sitt á Alþingi nú á eftir, þvert á skýra samþykkt Miðstjórnar flokksins sem krafðist undanþágu frá Orkupakkanum. Engu virðist skipta þótt ritari flokksins, fyrrverandi formaður, fyrrverandi þingmaður og einstök aðildarfélög hafi lýst sig andsnúin málinu — útlit er fyrir að allir þingmenn Framsóknar segi já í atkvæðagreiðslunni nú á eftir.
Landsstjórn Framsóknarflokksins setur jafnframt í forgang að flutningskostnaður raforku verði jafnaður á kjörtímabilinu, sem sé ein af mikilvægustu byggðaaðgerðum sem ráðast þurfi í. Framsóknarflokkurinn hafi ávallt staðið vörð um að í landinu búi ein þjóð sem þurfi að hafa jafnan aðgang að grunnþjónustu.
Þá áréttaði fundurinn þá stefnu Framsóknarflokksins að margir mikilvægustu innviðir samfélagsins séu í eigu þjóðarinnar. Um er að ræða innviði eins og Landsvirkjun, Landsnet, RARIK og Flugstöð Leifs Eiríkssonar svo einhverjir séu nefndir.