„Þessi greinargerð bætir auðvitað ekki miklu við það sem maður vissi fyrir um þetta mál eftir allt sem á undan er gengið, en samt er afar áhugavert að sjá þessa samantekt um málið allt og áfellisdóminn sem í þessu felst yfir stjórnsýslu Seðlabankans. Og auðvitað er manni brugðið, því greinilegt er að það átti líka að hunsa forsætisráðherra, rétt eins og gert var við Umboðsmann Alþingis og ákæruvaldið,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í samtali við Viljann í kvöld.
Eins og við skýrðum frá í dag, hefur bankaráð Seðlabankans skilað forsætisráðherra greinargerð um Samherjamálið, þar sem fram kemur hörð gagnrýni á bankann og stjórnsýslu innan hans.
Þá hafa bankaráðsmenn einnig stigið fram og lýst því að yfirstjórn bankans hafi hótað því að þeir kynnu að rjúfa trúnað bankaráðsmanna, ef þeir svöruðu erindi forsætisráðherra um stjórnsýslu bankans í málinu.
Þetta síðasta telur Þorsteinn Már grafalvarlegt mál, en í stíl við annað innan bankans. Ekkert hafi verið gert með ítrekaðar ábendingar Umboðsmanns Alþingis, engu hafi breytt þótt ákæruvaldið vísaði málum frá bankanum ítrekað heim aftur með rökum og sömu taktík hefði greinilega átt að nota nú þótt sjálfur forsætisráðherra landsins ætti í hlut.
Sjá einnig: Ekki tekist að sýna fram á nauðsyn þess að leggja á stjórnvaldssekt
Þorsteinn Már segir að fyrirtækið muni nú fara vel yfir greinargerð bankaráðsins og skoða næstu skref. Á vef Samherja er haft eftir Garðari Gíslasyni, lögmanni félagsins, að greinargerðin sé löng og all ítarleg og kalli á frekari greiningu af hálfu fyrirsvarsmanna félaga í samstæðu Samherja varðandi viðbrögð og næstu skref gagnvart Seðlabankanum.
„Samhliða hlýtur greinargerðin að kalla á viðbrögð af hálfu hins opinbera gagnvart stjórnendum Seðlabanka Íslands, enda ekki boðlegt að þeim sem falið er meðferð opinbers valds sé liðið að fara svo með það sem stjórnendur Seðlabanka Íslands gerðu og nánar er lýst í greinargerð bankaráðsins,“ segir Garðar.