Norsk stjórnvöld hafa samþykkt áætlanir um koparvinnslu á heimskautasvæðinu, og hefur það reitt umhverfisverndarsinna og fleiri til reiði, sem óttast að það muni leiða til eyðileggingar á beitarlöndum hreindýra og menga nálæga firði.
Hjarðmenn Sama og sjómenn hafa mótmælt áætlununum og hafa áhyggjur af því að til viðbótar við loftslagsbreytingar, olíumengun og veiðiþjófnað, komi það illa við búsvæði þeirra og afkomumöguleika.
Talið er að allt að 66 milljón tonn af kopar sé að finna í jörðu í Kvalsund á Finnmörku. Umhverfisverndarsinnar óttast að með þessu sé jafnframt verið að opna á meiri boranir og námuvinnslu á heimskautasvæðunum, sem ýmsir eygja sem lausn við þverrandi auðlindir málma og kolefniseldsneytis í heiminum, en bráðnun íss á norðurskautinu opnar möguleika fyrir vinnslu og siglingar.
Veita úrganginum beint út í sjó
Norska námufyrirtækið Nussir, sem á allan vinnsluréttinn, lofar að valda sem minnstu raski og norski iðnaðarráðherrann, Torbjörn Roe Isaksen er fullviss um að verkefnið verði hvalreki fyrir samfélagið á staðnum, með nýjum störfum.
Hreindýrabóndinn Nils Mathis Sara segir áætlanirnar sönnun þess að stjórnvöld í Osló taki áhyggjur íbúanna ekki alvarlega og umhverfisverndarsinnar óttast að sumarbeit hreindýra eyðileggist og hrygningarstöðvar Atlantshafslaxins í Repparfjord séu í hættu, en þangað á að veita vinnsluúrganginum, sem umhverfisverndarsamtök segja að gæti orðið 2 milljónir tonna árlega.
Noregur er eina landið í Evrópu sem leyfir að vinnsluúrgangi sé veitt beint í sjóinn, og hafa fiskistofnar svæðisins áður verið hætt komnir vegna þess.
Heimildir: The Independent og frifagbevegelse.no