Í nýlegri könnun FA meðal félagsmanna voru sömu spurningar um gjaldmiðla- og Evrópumál lagðar fyrir svarendur og mörg undanfarin ár. Niðurstöðurnar eru lítið breyttar frá fyrra ári, en talsvert ólíkar því sem var á árunum eftir hrun og fram til 2016.
Er spurt var hvort krónan væri framtíðargjaldmiðill fyrir Ísland, sögðust samtals 47% því ósammála, en 42% sammála. Þeim sem telja að búandi sé við krónuna til framtíðar hefur fjölgað verulega undanfarin ár, en til samanburðar má nefna að árið 2015 sögðust 19% hafa trú á því að krónan væri framtíðargjaldmiðill. Meirihluti er ekki sammála því að taka eigi upp annan gjaldmiðil einhliða hér á landi. Þá segjast 46% ósammála því að taka eigi upp evru við aðild að ESB, en 39% segjast því sammála.
Spurt var hvort halda hefði átt áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Rétt tæpur helmingur segist því ósammála, en 36% sammála. Þetta er svipuð niðurstaða og undanfarin tvö ár, en árið 2016 sögðust 57% á því að halda hefði átt viðræðunum áfram.
Þá var spurt um afstöðu til aðildar að ESB. Drjúgur meirihluti, eða 58%, er andvígur aðild en 30% sammála því að Ísland ætti að ganga í ESB.
Könnun FA var gerð dagana 24.-31. janúar. Svör fengust frá 73 fyrirtækjum af 161 með beina félagsaðild, en það er um 45% svörun, að því er fram kemur á vef FA.