Avangard-flaugin er ofur hljóðfrá: Nýársgjöf Pútíns til þjóðarinnar

Rússar hafa gert tilraun með nýja „ofur-hljóðfráa“ flaug sem nota má til kjarnorkuárásar hvar sem er í Evrópu. Flugskeytið ber heitið Avangard og dregur það 6.000 km með 20 sinnum hraða hljóðsins. Vladimir Pútín Rússlandsforesti kynnti flugskeytið til sögunnar milli jóla og nýárs og lýsti því sem „glæsilegri nýársgjöf til þjóðarinnar“.

Flugskeytinu var skotið á loft frá rússneskri herstöð skammt frá landamærum Kazakhstan og grandaði tilbúnu skotmarki á Kamstjaka-skaga á Kyrrhafsströnd Rússlands. Pútín sagði að engin loftvarna- eða eldflaugavarnakerfi stæðust flugskeytinu snúning, hvorki nú né í framtíðinni.

Í tilkynningu frá Kreml sagði að flaugin hefði bæði farið lárétt og lóðrétt og hitt tilbúið skotmark innan þeirra marka sem sett voru. Forsetinn sagði að Avangard-flaugin yrði tekin í notkun á árinu 2019. Stofnuð yrði herdeild til að tryggja að hún yrði ætíð til taks.

Vakin er athygli á að Pútín setur þetta á svið þegar Bandaríkjamenn og Rússar deila um INF-samninginn, um bann við meðaldrægum flugskeytum gegn skotmörkum í Evrópu.

Engin varnarvopn til við slíkum flugskeytum

Í þýska blaðinu Die Welt segir að fyrir þá sem til þekkja komi þessi tilraun ekki á óvart. Þeir hafi meiri áhyggjur af afleiðingum hennar. Í mars sagði Pútin frá Avangard-flauginni og þá gat hann einnig um ofurhraðskreitt tundurskeyti sem færi með fimmföldum hraða hljóðsins.

Það sem skapar Avangard-flauginni sérstöðu er að hvernig breyta má braut hennar. Hún er ekki eins og hefðbundnar langdrægar eldflaugar sem skotið er á sporbaug frá einum stað til annars. Hún fer með tí- til tuttuguföldum hraða hljóðsins með bylgjuhreyfingum í geimnum, „eins og steinn sem fleytt er á vatni“ að sögn eins ónafngreinds sérfræðings. Rand-hugveitan bandaríska segir að fyrir bragðið sé erfitt að geta sér til um skotmark flaugarinnar.

John Hyten, yfirmaður langdrægs herafla Bandaríkjanna, sagði í mars 2018 við varnarmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, að bandaríski herinn ætti engin varnarvopn gegn flugskeytum af þessari gerð.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur ekki setið auðum höndum vegna þessa heldur samið útboðslýsingu fyrir hergagnafyrirtæki um sem miðar að því að þróa varnarkerfi gegn þessum rússnesku flaugum. Það er ekki aðeins mikli hraðinn sem veldur Bandaríkjaher áhyggjum heldur hvernig eigi að greina braut flaugarinnar. Slík greining er forsenda þess að unnt sé að skjóta flaugina niður áður en hún nær til skotmarks síns.

Af vardberg.is, birt með leyfi.