„Þetta er bæði risastórt efnahagslegt hagsmunamál og prinsippmál,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra um aflandskrónumálin, en annarri umræðu lauk í kvöld með samkomulagi um að þriðja umræðan um málið yrði á morgun.
Fundur stendur yfir í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins vegna málsins, en gera má ráð fyrir að það verði afgreitt á morgun sem lög frá Alþingi.
„Aflandskrónumálin voru ein af þremur meginstoðum aðgerðanna sem ráðist var í til að losa höft og endurreisa efnahagslíf Íslands árið 2015.
Miðað við hvað þær aðgerðir hafa skilað miklum árangri í heild er furðulegt að í þessu tilviki sé stefnunni snúið á hvolf og stöðugt gefið eftir gagnvart vogunarsjóðunum sem eiga þessar aflandskrónur, keyptu þær á miklum afslætti og vilja að ríkið borgi þá út á fullu verði,” sagði Sigmundur Davíð við Viljann í kvöld.
Í hverju felst eftirgjöfin að ykkar mati?
„Því tregari sem menn hafa verið til að leggja sitt af mörkum til endurreisnarinnar þeim mun meira hafa þeir fengið í sinn hlut. Alveg öfugt við það sem lagt var upp með. Þ.e. barátta þeirra gegn stefnu stjórnvalda hefur virkað. Nú sitja þeir eftir sem hafa ekki verið til í að samþykkja nokkurn skapaðan hlut og þá vilja stjórnvöld aflétta höftum af þeim einhliða.”
Þú hefur lengi staðið í stríði við vogunarsjóðina. Er þetta framhald þeirra átaka?
„Ég myndi frekar segja að þeir hafi staðið í stríði við mig. Ég hef bara farið fram á að þeir legðu sitt af mörkum til endurreisnar efnahagslífsins eins og flestir gerðu reyndar á endanum. Hins vegar fóru margir þessara aðila ekki leynt með að þeir vildu mig burt og vildu nýja stefnu. Þessir aflandskrónumenn gengu meira að segja svo langt að skipta sér af kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar m.a. með auglýsingum þar sem þeir kröfðust stefnubreytingar. Nú virðast þeir hafa fengið sitt fram.”
Ertu að halda því fram að stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi þessara aðila?
„Það er ljóst að stjórnvöld eru að verða við kröfum þeirra. Spurningin er bara hvers vegna? Við fáum engin svör við því enda hefur enginn þeirra þingmanna sem styðja málið treyst sér til að taka þátt í umræðunni. Þ.e. enginn þeirra hefur haldið ræðu í 17 klukkutíma umræðu nema hvað formaður efnahagsnefndar kynnti í upphafi stutt nefndarálit,” segir Sigmundur Davíð.