Fjölmennur bændafundur lét Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðarráðherra, hafa það óþvegið í Þingborg í Flóa í gærkvöldi vegna frumvarps sem hann hefur lagt fram í samráðsgátt, en það heimilar innflutning á hráu ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk til vinnslu.
Á fundinum fór ráðherra ítarlega yfir sögu málsins og viðbrögð stjórnvalda en í kjölfarið gafst fundarmönnum tækifæri til að beina spurningum til ráðherra.
„Ég er virkilega ánægður með kröftugan og málefnalegan fund. Mér finnst vera að skapast meiri skilningur á þeirri staðreynd að stjórnvöld þurfa að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er. Jafnframt að allir aðilar – hvort sem það eru bændur, stjórnvöld eða aðrir – sameinist í því verkefni að setja upp öflugar varnir til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Um leið þurfum við að sameina krafta okkar í því að draga fram óumdeilda kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er þannig að íslenskar vörur verði fyrsti kostur allra neytenda. Ég er sannfærður um að þetta mun takast,“ segir hann.
Kristján Þór mun á næstu dögum halda fleiri fundi um allt land og er fundardagskráin eftirfarandi:
- Fimmtudagur 28. feb. kl. 12:00 Þjóðminjasafnið, Reykjavík
- Fimmtudagur 28. feb. kl. 19:30 Félagsheimilið Hlíðarbær, Hörgársveit
- Mánudagur 4. mars kl. 19:30 Hótel Hamar, Borgarnesi
- Þriðjudagur 5. mars kl. 19:30 Hótel Valaskjálf, Egilsstöðum
Um 250 manns sóttu fundinn, en á honum var ráðherra afhent áskorun til ríkisstjórnar Íslands frá formönnum 42 félagasamtaka bænda, en hún hljóðar svo:
Áskorun til ríkisstjórnar Íslands
„Við undirrituð, formenn í félagasamtökum bænda, leggjumst alfarið gegn frumvarpi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti þann 20. febrúar sl. og felur í sér heimild til þess að flytja inn hrátt ófrosið kjöt og fersk egg.
Verði frumvarpið að veruleika felur það í sér fullkomna uppgjöf í baráttu okkar Íslendinga fyrir því að verja lýðheilsu þjóðarinnar og íslenskra búfjárstofna sem hafa sérstöðu í alþjóðlegu samhengi.
Við skorum á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ríkisstjórn Íslands að taka þegar í stað upp EES samninginn og semja um breytingar sem heimila íslensku þjóðinni að viðhalda sérkennum íslensks landbúnaðar; heilbrigðum búfjárstofnum og heilnæmum matvælum. Sérfræðingar hafa ítrekað varað við slæmum afleiðingum þess að óheftur innflutningur verði heimilaður og það sætir furðu að stjórnvöld skuli skella skollaeyrum við þessum viðvörunum.
Bændur eru fullkomlega reiðubúnir til þess að mæta kröfum íslenskra neytenda um heilnæm og fjölbreytt matvæli og þróa sínar afurðir í samræmi við þær kröfur. Við mótmælum því harðlega að stjórnvöld gangi jafn augljóslega erinda fjársterkra stórkaupmanna gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar.“
Undir áskorunina rita:
- Einar Freyr Elínarson, formaður Félags sauðfjárbænda í Vestur-Skaftafellssýslu
- Ólafur Benediktsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu
- Guðfinna Harpa Árnadóttir, formaður Félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum
- Eiður Gísli Guðmundsson, formaður Félags sauðfjárbænda á Suðurfjörðum
- Ásta F. Flosadóttir, formaður Félags sauðfjárbænda í Eyjafirði
- Þóra Sif Kópsdóttir, formaður Félags sauðfjárbænda á Snæfellsnesi
- Sigurþóra Hauksdóttir, formaður Félags sauðfjárbænda í Vopnafirði
- Sæþór Gunnsteinsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Suður-Þingeyjarsýslu
- Trausti Hjálmarson, formaður Félags sauðfjárbænda í Árnessýslu
- Ástþór Örn Árnason, formaður Félags sauðfjárbænda í Skagafirði
- Davíð Sigurðsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Borgarfirði
- María Dóra Þórarinsdóttir, formaður í deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Kjalarnesþings
- Anna Berglind Halldórsdóttir, formaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu
- Jóhann Ragnarsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Strandasýslu
- Birgir Þór Haraldsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu
- Sigrún Harpa Eiðsdóttir, formaður í deild sauðfjárbænda í Búnaðarsambandi Austur-Skaftafellssýslu
- Jóhann Pétur Ágústsson, formaður Félags sauðfjárbænda á Vestfjörðum
- Sigurður Þór Guðmundsson, formaður Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga
- Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda
- Ingvi Stefánsson, formaður Félags svínabænda
- Jón Magnús Jónsson, formaður Félags kjúklingabænda
- Þorsteinn Sigmundsson, formaður Félags eggjaframleiðenda
- Kjartan Gunnar Jónsson, formaður Félags ungra bænda á Suðurlandi
- Jónas Davíð Jónasson, formaður Félags ungra bænda á Norðurlandi
- Jón Þór Marinósson, formaður Félags ungra bænda á Vesturlandi og Vestfjörðum
- Jón Elvar Gunnarsson, formaður Félags ungra bænda á Austurlandi
- Jóna Björg Hlöðversdóttir, formaður Samtaka ungra bænda
- Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands
- Pétur Diðriksson, formaður Kúabændafélagsins Baulu á Vesturlandi
- Guðmundur Davíðsson, formaður Mjólkursamlags Kjalarnesþings
- Þórólfur Ómar Óskarsson, formaður Félags Eyfirskra kúabænda
- Guðrún Eik Skúladóttir, formaður Nautgriparæktarfélags Vestur-Húnavatnssýslu
- Björgvin Gunnarsson, formaður Félags nautgripabænda á Héraði og Fjörðum
- Björn Birkisson, formaður Félags kúabænda í Ísafjarðarsýslum
- Kjartan Stefánsson, formaður Félags Þingeyskra kúabænda
- Hallur Pálsson, formaður Félags Nautgripabænda við Breiðafjörð
- Halldóra Andrésdóttir, formaður Nautgriparæktarfélags Vopnafjarðar
- Brynjólfur Friðriksson, formaður Félags kúabænda Í Austur-Húnavatnssýslu
- Ingi Björn Árnason, formaður Félags kúabænda í Skagafirði
- Elín Oddleifsdóttir, formaður Nautgriparæktarfélags Austur-Skaftafellssýslu
- Rafn Bergsson, formaður Félags kúabænda á Suðurlandi
- Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda