Segja má að pólitísk tíðindi hafi orðið á þingi í morgun þegar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsti því yfir að algjör samstaða sé í ríkisstjórninni um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Hingað til hefur verið ljóst að töluverð andstaða sé við málið innan stjórnarflokkanna og hefur formaður Framsóknarflokksins meðal annars sagt, eftir að Miðstjórn flokksins hafnaði innleiðingunni á fundi fyrir áramót, að mikilvægt sé að leita eftir undanþágu frá orkupakkanum hér á landi.
Það var Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, sem spurði utanríkisráðherra um orkupakkann við upphaf þingfundar í morgun. Vísaði hann til þess að Guðlaugur Þór væri enn og aftur búinn að fresta framlagningu þriðja orkupakkans um ótiltekinn tíma, málið væri orðið hið vandræðalegasta fyrir ráðherrann og ríkisstjórnina, Norðmenn hafi klárað málið fyrir sitt leyti fyrir um ári síðan fumlaust og án vandræða en það virðist íslensku ríkisstjórninni ofviða.
„Hvað skýrir þessar endalausu tafir? Má skilja áherslur ráðherra nú á vandaðan undirbúning svo að málið hafi verið vanbúið af hálfu ráðuneytisins til þessa því að ekki hefur þriðji orkupakkinn breyst í það minnsta? Nýtur málið ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar?“ spurði Þorsteinn og benti á að Viðreisn og Samfylkingin séu tilbúin að styðja málið í þinginu til að koma því áfram, reynist ekki stjórnarmeirihluti fyrir því.
Guðlaugur Þór sagðist ætla að taka þann tíma sem þyrfti í orkupakkann, enda snerist málið fyrst og fremst um EES-samninginn.
„En við þekkjum alveg umræðuna í landinu, við vitum alveg hvernig hún er, og við verðum að taka þetta á breiðari grunni. Við verðum að ræða EES-samninginn og hinar endalausu rangfærslur sem hafa verið í gangi um EES-samninginn mjög lengi og eru algjörlega óþolandi,“ sagði hann.
Krafa framsóknar ekki í gildi?
Ummæli utanríkisráðherra um samstöðu í ríkisstjórninni um innleiðingu þriðja orkupakkans, vekja athygli í ljósi ályktunar sem samþykkt var eftir átakafund um málið í Miðstjórn Framsóknarflokksins fyrir áramót.
Þar sagði í ályktuninni:
„Framsóknarflokkurinn hafnar innleiðingu þriðja orkupakkans
Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Framsóknarflokkurinn áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn hefur ályktað að slík tenging þjóni ekki hagsmunum landsmanna. Því ber að að hafna innleiðingu þriðja orkupakkans og semja við ESB um að Ísland verði undanþegið orkulöggjöf ESB.“