Markmið íslenskra stjórnvalda er að opna ytri landamæri Schengen-svæðisins 1. júlí nk. Verður það gert, hvort sem um verður að ræða sameiginlega ráðstöfun allra ríkja innan Schengen-svæðisins eða aðeins Íslendinga.
Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Eins og kunnugt er, stendur til að opna landið fyrir ferðamönnum frá löndum innan Schengen nú á mánudag, 15. júní, en ferðamönnum frá öðrum löndum, þar með talið Bandaríkjunum, verður enn óheimilt að koma hingað til lands.
Fram kom í kvöldfréttum RÚV, að þrjú flugfélög, þar af tvö erlend, ætla að hefja millilandaflug til Íslands strax á mánudag þegar ferðatakmörkunum verður aflétt. Von er á sex farþegavélum til Keflavíkur þann dag.