Bandaríski flotinn vinnur að áætlunum um að senda nokkur herskip um Norður-Íshaf næsta sumar. Komi til þess verður um stefnubreytingu af hálfu Bandaríkjastjórnar að ræða til að bregðast við rússneskum umsvifum á þessum slóðum og hugsanlega setja skorður við þeim.
Þetta segir Malte Humpert á vefsíðunni High North News þriðjudaginn 12. mars.
Blaðamaðurinn vísar til þess að undanfarið hafi bandarískir herforingjar oftar en einu sinni rætt um nýja norðurslóðastefnu. Hershöfðinginn Curtis Scaparrotti, yfirmaður bandarísku Evrópuherstjórnarinnar, sagði á fundi hermálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings að loftslagsbreytingar breyti mati bandaríska flotans.
„Nú þegar Norðurleiðin er opin oftar en áður og þar má finna auðlindir og viðskiptatækifæri. […] Þá kemur samkeppni til sögunnar,“ sagði Scaparrotti og einnig: „Við látum vita að Norður-Íshaf skipti okkur máli.“
Richard V. Spencer, flotamálaráðherra Bandaríkjanna, tók í svipaðan streng og sagði að fjölgun kaupskipa á svæðinu kallaði á návist herflotans. „Til dæmis hef ég rætt það við [aðgerðarstjóra flotans] að í sumar sigli nokkur skip um Norður-Íshafið.“ Spencer staðfesti að með æfingunni yrði látið reyna á siglingafrelsi. Hann vildi þó ekki segja hvort um yrði að ræða ferð eftir eða nærri Norðurleið Rússa.
Bandaríkjastjórn hafa sent kafbáta og eftirlitsflugvélar inn á Norður-Íshaf að minnsta kosti síðan á sjöunda áratug síðustu aldar. Bandarísk herskip hafa þó ekki reglulega verið send norður fyrir heimskautsbaug. Þegar flugmóðurskipið Harry S. Truman hélt með fylgdarskipum sínum á norðurslóðir í október 2018 voru þetta fyrstu bandarísku herskipin í tæp 30 ár sem héldu á þessar slóðir. Skipin tóku þátt í æfingunni Trident Juncture sem hófst hér á Íslandi.
Scaparrotti sagði að Bandaríkjamenn ætluðu að svara umsvifum Rússa á norðurslóðum. „Rússar hafa opnað tíu flugvelli þar. […] Þeir hafa sett upp ratsjárkerfi þar. Þeir hafa tekið til við að flytja ólík vopnakerfi þangað til að halda þar uppi tímabundnu eftirliti. Til alls þessa verð ég að líta við gerð áætlana minna. Rússar eru að auka forskot sitt í vígbúnaði á norðurslóðum og herstöðvar þeirra eiga enn að styrkja stöðu þeirra.“
Í greininni segir blaðamaðurinn að Rússar svari ekki spurningum hans og Rússar segi ekki neitt um áform Bandaríkjastjórnar. Rússar hafa hins vegar kynnt strangar reglur um ferðir erlendra herskipa á Norðurleiðinni. Rússar segja leiðina falla undir sína stjórn og hafa með nýju reglunum brugðist við því að franski flotinn sendi tvö skip á sínum vegum annars vegar aðstoðarskip af Loire-gerð og hins vegar herskipið Rhône eftir Norðurleiðinni í september 2018 – aldrei fyrr höfðu herskip úr flota NATO-ríkis siglt þessa leið.
Í nýju reglunum segir að tilkynna verði Rússum með 45 daga fyrirvara að senda eigi herskip eftir leiðinni og lýsa verði skipinu og siglingaleið þess. Þá ber að taka rússneskan ís-lóðs um borð. Er ólíklegt að erlend herskip verði við þessari kröfu. Bandaríkjastjórn andmælir öllum slíkum reglum sem hún telur brjóta gegn siglingafrelsi.
Af vardberg.is, birt með leyfi.