Flugher Bandaríkjanna stefnir á næstu árum að framkvæmdum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Fyrir liggur áætlun um þær að fjárhæð 57 milljónir dollara fram til ársins 2021 eða sem svarar til um 6.8 milljarða króna. Það bætist við um 20 milljónir dollara, eða rúma 3 milljarða króna, sem bandaríski sjóherinn ætlar að verja vegna flugskýlis fyrir kafbátaleitarflugvélar á flugvellinum.

Þótt næstum 80 milljónir dollara sé umtalsverð fjárhæð fela þessar áætlanir ekki í sér grundvallarbreytingu eða kaflaskipti í varnarsamstarfi Bandaríkjanna og Íslands. Bandaríkjaher er ekki að koma aftur til Keflavíkur.

Þetta segir Albert Jónsson fv. sendiherra á vefsíðu sinni um alþjóðamál og utanríkismál, en hann hefur fjallað um öryggis- og varnarmál um áratugaskeið í störfum sínum fyrir forsætis- og utanríkisráðuneyti, auk þess sem hann var framkvæmdastjóri Öryggismálanefndar og sinnti stundakennslu um langt árabil í alþjóðastjórnmálum og sagnfræði við Háskóla Íslands.

Albert hefur rýnt nánar í áætlun flughersins og segir að féð, sem renni til hennar, komi úr sjóðum sem standa undir auknum viðbúnaði Bandaríkjahers í Evrópu samkvæmt sérstakri stefnu um að efla fælingu gegn Rússlandi.

Bandaríkjamenn voru áratugum saman með fjölmennt herlið á Keflavíkurflugvelli.

„Á ensku heitir stefna Europan Deterrence Initiative og hefur verið veitt um 6 milljörðum dollara til hennar á ári (af um 700 milljarða árlegum heildarútgjöldum Bandaríkjanna til hermála). Obama stjórnin mótaði stefnuna í kjölfar þess að samskipti NATO og Rússlands versnuðu eftir að Rússar innlimuðu Krím og hófu hernaðaríhlutun í innanlandsátök í Donbass héraði í austurhluta Úkrænu.

Aukin viðvera hersveita í Evrópu

Stefnan felur í sér aukna tímabundna (rotational) viðveru hersveita og flugsveita í Evrópuríkjum og hefur einnig leitt til þess að fé hefur verið varið til viðhalds, endurnýjunar og byggingar innviða í herstöðvum og á flugvöllum.  Framkvæmdirnar sem standa til á Keflavíkurflugvelli lúta að viðhaldi og endurnýjun flughlaða og akstursbrauta á öryggissvæðinu sem og að stækkun á flughlaði og byggingu á nýju hlaði. Einnig verður viðeigandi ljósabúnaður endurnýjaður. Umrædd svæði eru ekki notuð af flugvélum í almennri umferð um Keflavíkurflugvöll og því ekki hluti af viðhaldskerfi flugvallarins,“ segir hann.

Albert Jónsson fv. sendiherra.

Í skýringum við áætlunina kemur fram að umrætt viðhald sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og niðurníðslu flughlaða og akstursbrauta, en einnig er ljóst að um nýframkvæmdir er að ræða sem lúta að stækkun á flughlaði og svæði fyrir herbúðir.

Fram kemur að áætluninni sé ætlað að styðja við fyrrnefnda fælingarstefnu í Evrópu sem og þann þátt í henni sem nefnd er Operation Atlantic Resolve. Hann felst í því að halda úti tímabundið hersveitum, þar á meðal flugssveitum, í ýmsum Evrópulöndum, þó einkum Eystrasaltsríkjunum, Pólandi, Búlgaríu, Rúmeníu og Ungverjalandi.

„Áætlun flughersins nú felur ekki í sér að áhugi Bandaríkjahers á Íslandi sé að taka grundvallarbreytingu. Fyrst og fremst virðist verið að viðhalda almennu hlutverki Íslands varðandi liðsflutninga í lofti til Evrópu og hlutverki þess í hugsanlegum átökum á norðurslóðum. Þungamiðja þeirra yrði að líkindum langt fyrir norðan landið. Þá eru forsendur áætlunarinnar að miklu minni að umfangi en þær sem uppi voru í kalda stríðinu varðandi liðsaukaáætlanir vegna Íslands og fyrirætlanir í nágrenni þess,“ segir Albert Jónsson ennfremur á vefsíðu sinni.