Bankasýslan krefst þess að aðalfundi Landsbankans verði frestað

Bankasýsla ríkisins hefur með bréfum til bankaráðs Landsbankans krafist þess að aðalfundi bankans, sem til stendur að halda nú á miðvikudag, verði frestað um fjórar vikur. Jafnframt lýsir Bankasýslan yfir „vonbrigðum“ með ákvörðunartöku og upplýsingagjöf um kaup Landsbankans á tryggingarfélaginu TM frá Kviku banka og gefur raunar beinlínis í skyn, að stofnuninni hafi verið haldið frá upplýsingum um málið.

Þetta má lesa í bréfum Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, til bankaráðs Landsbankans og fjármálaráðherra sem send voru í dag og birtust  á vef Bankasýslunnar nú í kvöld.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði upplýst á þingi í dag, að Bankasýslunni hafi ekki verið tilkynnt um kaupin fyrirfram, eins og bæri að gera þegar um væri að ræða meiriháttar ákvarðanir í rekstri bankans. Ummæli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra í gærkvöldi vöktu mikla athygli, en hún sagði á Facebook, að kaupin yrðu ekki gerð með hennar samþykkti nema jafnframt yrði farið af stað með einkavæðingu Landsbankans.

Hvort tveggja forsætisráðherra og viðskiptaráðherra höfnuðu slíkum hugmyndum á þingi í dag.

Í bréfi Bankasýslunnar kemur margt athyglisvert fram. Þar er raunar fullyrt að Bankasýslunni hafi ekki verið gert viðvart um kaupin fyrr en skuldbindandi tilboði var tekið, kl. 17 í gær.

„Það er mat BR að tilboð Landsbankans í 100% eignarhlut TM sé þess eðlis að Landsbankanum hafi borið að upplýsa BR um það með skýrum og formlegum hætti og með eðlilegum fyrirvara,“ segir í bréfinu til bankaráðs Landsbankans.

Bankasýslan krefst þess að Landsbankinn afhendi sér innan sjö daga, greinargerð um aðdraganda tilboðsins, framvindu þess og ákvarðanatöku, forsendum og rökum viðskiptanna. Þar er þess sérstaklega óskað að gerð verði grein fyrir því hvernig viðskiptin hafa áhrif á áhættu í rekstri bankans og möguleika hans til að greiða hluthöfunum arð.