Danskir vísindamenn hafa unnið að rannsóknum á Lomonosovhryggnum, 1.800 km löngum neðansjávarhrygg í Norður-Íshafi sem tengist Grænlandi. Sanni þeir að hann sé framlenging á landgrunni Grænlands geta Grænlendingar og Danir gert kröfu um eignarhald á auðlindum sem kunna að finnast þarna á hafsbotni.
Í Jyllands-Posten var skýrt frá því á aðfangadag, mánudaginn 24. desember, að dönskum jarðfræðingum hefði tekist að ná í grjót af hryggnum sem lá á 3 km dýpi sem sannaði þetta.
„Þetta er gullklumpur í þeim skilningi að hann segir okkur að hryggurinn er hluti af meginlandi sem farið hefur í kaf og er framhald Grænlands undir sjávarborði,“ segir Christian Knudsen sem er vísindamaður við De Nationale Geologiske Undersøgelser for Danmark og Grønland (Geus), það er ríkisstofnun sem annast jarðfræðilegar rannsóknir fyrir Danmörku og Grænland. Hann er í hópi þeirra sem rannsakað hafa steininn.
„Þegar við hófum rannsóknirnar vissi enginn hvað við kynnum að finna. Með þessum steini getum við sannað að saga hans tengist Grænlandi,“ segir Christian Knudsen.
Lomonosovhryggurinn er 1.800 km neðansjávar fjallshryggur sem teygir sig frá norðurhluta Grænlands að Nýju-Síberíueyjunum við Rússland.
Danskir vísindamenn hafa árum saman verið sendir í leiðangra til að safna upplýsingum í því skyni að sanna að hryggurinn sé framlenging á landgrunni Grænlands. Nú er það talið sannað með þessum 8 milljón ára gamla steini af 3 km dýpi. Með því að rannsaka efni steinsins er talið að hann hafi orðið til við landris sem varð þegar tveir meginlandsflekar rákust saman fyrir um 470 milljónum ára.

Vísindalegar niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið sendar hafréttaernefnd Sameinuðu þjóðanna. Hún fjallar nú um kröfur og rök ríkja sem telja sig eiga rétt til yfirráða á Norður-Íshafsbotninum. Rannsókn nefndarinnar tekur mörg ár og ekki er talið að ferlinu ljúki fyrr en í kringum 2027.
Árið 2014 lögðu Danir fram kröfu í nafni sínu og Grænlendinga um forræði yfir 895.000 ferkílómetra svæði á hafsbotni utan 200 mílna lögsögu Grænlands. Nær svæðið yfir Norðurpólinn og allt að 200 mílna lögsögu Rússa. Svæðið er 20 sinnum stærra en Danmörk.
Christian Knudsen segir að Rússar hafi einnig safnað miklu af steinum og öðrum gögnum kröfum sínum til stuðnings en Danir standi þó betur að vígi að þessu leyti. Þetta sé alþjóðlega viðurkennt og einnig af rússneskum jarðfræðingum sem hafi fallist á athuganir og niðurstöðu Dana.
Rússar og Danir gera að nokkru kröfu til sömu svæða á botni Norður-Íshafs. Á vettvangi SÞ verður skorið úr um hvort þjóðirnar geti tæknilega haldið fast í þessar kröfur. Er það talið líkleg niðurstaða og þá taka við viðræður á pólitískum vettvangi um markalínu til að ákvarða yfirráðin.
Heimild: Jyllands-Posten. Af vardberg.is og birt með leyfi.