Baráttan við ómíkron verður þyngri og við höfum styttri tíma til að bregðast við

©Kristinn IngvarssonPáll Melsted prófessor.

Dr. Páll Melsted, prófessor og sérfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar þegar kemur að raðgreiningum hér á landi á COVID-19 smitum, varar eindregið við því að framundan geti verið þung bylgja smita af völdum hins nýja ómríkon-afbrigðis sem kennt er við Suður Afríku.

„Þegar ómíkron kom fyrst fram var lítið um góð gögn en á sama tíma mikilvægt að vera á varðbergi. Fjöldi stökkbreytinga í S prótíni olli áhyggjum en óljóst hvernig dreifingin yrði í meira bólusettu samfélagi. Nú eru góð gögn komin fram, hröð dreifing í Þýskalandi, Bretland, Danmörku og Bandaríkjunum. Í Danmörku var ómíkron 20% tilfella 12. des, 71% í London á sama tíma. Þetta eru þjóðir með góðan vísindainnviði sem fengu skellinn fyrst.

Tvöföldunartími ómíkron bylgjunnar er mældur sem ca 3 dagar í þessum löndum. Gott eftirlit á landamærunum á Íslandi seinkar því að ómíkron nái útbreiðslu í samfélaginu. Öflugt starf rakningarteymisins getur haldið þessu í skefjum til að byrja með en með þessu áframhaldi mun eitthvað bresta og bylgjan líklega rísa hátt,“ segir Páll í færslu á fésbókinni þar sem hann varar við aðsteðjandi hættu og því að vanmeta stöðuna.

Páll er prófessor í tölvunarfræði við iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Hann lauk stúdentsprófi frá MR, BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og doktorsgráðu í reikniritum, fléttufræði og bestun frá Carnegie Mellon University árið 2009. Að námi loknu starfaði Páll sem nýdoktor við mannerfðafræðideild Chicago-háskóla. Hann hóf störf við Háskóla Íslands árið 2011 og fékk styrk sem Fulbright-fræðimaður árið 2015.

Á undanförnum árum hafa rannsóknir Páls að mestu snúið að þróun aðferða á sviði lífupplýsingafræði, einkum til að vinna úr miklu magni af raðgreiningargögnum. Það var því kannski ekki að undra að Kári Stefánsson skyldi fela honum það verkefni þegar faraldurinn náði hingað til lands snemma árs í fyrra og fela honum túlkun gagna og úrvinnslu upplýsinga úr raðgreiningu. Í bókinni Vörn gegn veiru, eftir Björn Inga Hrafnsson ritstjóra Viljans, sem kom út í fyrra er ítarlega farið yfir þessa vinnu Páls og aðferðafræði.

„Jafnvel þótt helmingi færri legðust inn á spítala af völdum ómíkron væri það skammvinnur gróði, líklega myndi það seinka því að Landspítalinn færi í kaf um 3 daga eða svo (miðað við upplýsingar um smithraða frá Evrópulöndum)
Í fréttum talaði nýr heilbrigðisráðherra um að mögulega væri hægt að skoða afléttingar vegna minni einkenna. Ég veit ekki hver er að ráðleggja þessum ágæta manni en þeir (þetta eru alltaf karlar) hafa takmarkaðan skilning á menntaskólastærðfræði og hugsa ekki tvær sendingar fram í tímann (myndmál sem hæstvirtur ráðherra ætti að skilja). Baráttan við delta hefur verið þung og of löng en samt gerleg. Ómíkron verður líklegast mun þyngri og við höfum styttri tíma til að bregðast við,“ bætir Páll við.