Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, telur að hækka þurfi lægstu laun og fjölga félagslegum íbúðum í Reykjavík til þess að vinna gegn aukinni fátækt. Þetta kom fram í erindi sem Kolbeinn hélt í velferðarkaffi, opnum fundi velferðarráðs í félagsmiðstöðinni Hraunbæ 105 á föstudag.
Þar var umfjöllunarefnið börn og fátækt og þróun þjónustu með tilliti til barna. Kolbeinn sagði að taka þyrfti meira tillit til tekna þegar greiða á leikskólagjöld, skólamáltíðir og tómstundir barna.
Soffa Hjördís Ólafsdóttir og Hervör Alma Árnadóttir félagsráðgjafar fjölluðu um reynsla barna af því að búa við fátækt í Reykjavík en þær styðjast við eigin rannsókn sem var gerð á vegum velferðarsviðs þar sem sýnd eru áhrif fátæktar á velferð barna. Mat þeirra er að börn þurfi langtíma aðstoð og tryggja þurfi eftirfylgni í þeim úrræðum sem börnum í tekjulágum fjölskyldum bjóðist.
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, talaði um fátæk börn og þjónustu við barnafjölskyldur á sviðinu. Tæplega 800 börn eru að baki foreldra/forráðamanna sem fá fjárhagsaðstoð. Hún fór yfir stöðuna hjá Félagsbústöðum en unnið er markvisst að fjölgun íbúða. Hún nefndi ýmis valdeflandi úrræði á borð við Kvennasmiðju, Karlasmiðju, Grettistak, Bata-skólann og verkefnið TINNU, sem aðstoðar 36 einstæðar mæður og 62 börn þeirra. Árið 2016 var þjónusta við börn forráðamanna með fjárhagsaðstoð til framfærslu 6 mánuði og lengur kortlögð og þar er hægt að kynna sér ýmis úrræði fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
Að lokum tóku Gunnar Ingi Gunnarsson og Hildur Oddsdóttir til máls og fjölluðu um fátækt af eigin raun. Gunnar Ingi sagði að ef að eitt barn elst upp við fátækt þá er það einu barni of mikið. Hann fjallaði um skömm, einelti, einangrun og áföll sem fylgja því að alast upp við fátækt. Hann lagði áherslu á að börn upplifa áföll og kvíða vegna streitu foreldra sinna og að börnin kenni sér um ástandið á heimilinu. Hann sagði það á ábyrgð samfélagsins að bæta stöðu fátækra barna.