Beina því til félagsmanna að taka orðsendingar Eflingar niður

Orðsendingin sem SAF vill að fyrirtæki í ferðaþjónustu taki niður. / Ljósmynd af fésbókarsíðu SAF.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent félagsmönnum sínum bréf þar sem fram kemur að ábendingar hafi borist í gær um að Efling hefði hengt upp spjöld á hótelum með orðsendingu sem beint er til gesta. 

„Orðsendinguna má skilja þannig að gestir gerist brotlegir við íslensk lög með því að nota hópferðabíla og strætisvagna á verkfallsdögum á morgun og föstudag. Einnig er í orðsendingunni rangtúlkun Eflingar á því hverjir mega vinna í boðuðum verkföllum, sem SA og SAF telja skýrt að er í andstöðu við lög og dómahefð,“ segir í bréfi SAF.

„SAF telur það í hæsta máta óeðlilegt að Efling skuli með þessum hætti reyna að velta ábyrgð yfir á viðskiptavini ferðaþjónustufyrirtækja og ýta undir óöryggi gesta í ómögulegum aðstæðum sem stéttarfélagið Efling ber fulla ábyrgð á.

Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa staðið sig vel í að upplýsa gesti um aðstæður og það er fullkomlega ólíðandi að Efling dreifi til þeirra röngum upplýsingum sem eru til þess fallnar að skapa óvissu og óöryggi. Til þess hefur Efling engan rétt,“ segir þar ennfremur.

Í ljósi þess að um rangar upplýsingar er að ræða beinir SAF því til félagsmanna að taka þessar orðsendingar niður hvar sem til þeirra sést og halda áfram að veita viðskiptavinum réttar og góðar upplýsingar eins og hingað til.