Bergþór áfram formaður í umhverfis- og samgöngunefnd

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins sem snúinn er aftur úr launalausu leyfi, verður áfram formaður Umhverfis- og samgöngunefndar þingsins.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, hafði lýst því yfir fyrir helgi, að mikill vilji væri til þess að breyta um formann í nefndinni, en samkvæmt heimildum Viljans er það ekki rétt, flokkarnir hafa ekki óskað eftir því að samkomulag um nefndaskipan verði tekið upp að nýju.

Þá eru ekki nein áform um það innan Miðflokksins að taka Bergþór af sem formann nefndarinnar.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á fésbókarsíðu sinni, að Ari Trausti sé ekki talsmaður minnihlutans á Alþingi:

„Samkomulag um formennsku í nefndum var um að stjórnarandstaðan fengi þrjá formenn og við ákváðum að stærsti fengi að velja fyrstu nefndina og svo koll af kolli. Flokkarnir ráða því algjörlega sjálfir hvaða þingmenn eru valdir í formannssætið. Það er því Miðflokkurinn sem ræður því hver er formaður í umhverfis- og samgöngunefnd. Hinn valkosturinn er að rifta samkomulaginu og þá er allt undir og allir flokkar þurfa að setjast niður og finna aðra umgjörð um störf þingsins,“ segir hún.