Andmæli sem bárust varaforsætisnefnd Alþingis frá Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, um Klaustursmálið, urðu meðal annars til þess að ekki reyndist unnt að afgreiða álit á fundi nefndarinnar í gær um hvort þingmenn sem sátu á Klausturbar í nóvember sl. hafi gerst brotlegir við siðareglur Alþingis.
Þetta herma heimildir Viljans. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir í andmælunum alveg galið að vera útmálaður í hlutverki geranda vegna ummæla hans á Klausturbar um Albertínu Elíasdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar. Staðreyndin sé sú að staðan sé þveröfug og það sé ástæðan fyrir því að hann hafi hvorki dregið til baka orð sín um hana sem féllu á Klausturbar, né beðist afsökunar á þeim.
Þetta er meðal þess sem Bergþór segir í harðorðu andmælabréfi til sérstakrar forsætisnefndar Alþingis, en þau Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson, sem kosin voru varaforsetar Alþingis tímabundið til að taka á Klausturmálinu, hafa fundað að undanförnu og síðast í gær til að meta hvort þingmennirnir sem hittust á Klaustursbar hafi með ummælum sínum gerst brotlegir við siðareglur Alþingis.
Þau Haraldur og Steinunn Þóra afgreiddu málið ekki á fundi sínum, en hafa uppi áform um að skila af sér niðurstöðum fyrir helgi.
Persónuvernd úrskurðaði í vor að Bára hefði með tekið upp samtal þingmannanna með ólöglegum hætti, brotið með því lög um persónuvernd og bæri að eyða upptökunni.
Karlmenn eigi að grjóthalda kjafti
Samkvæmt heimildum Viljans gerir Bergþór mjög alvarlegar athugasemdir við þá ætlan forsætisnefndar að vinna álit úr ólöglega fengnum upptökum. Aukinheldur undrast hann þá ætlan þeirra Haraldar og Steinunnar Þóru að leggja blessun sína yfir það að karlmenn skuli grjóthalda kjafti ef á þá er sótt með harkalegum kynferðislegum hætti, en sé slíku haldið fram úr gagnstæðri átt, þá skuli karlinn helst ekki bera hönd fyrir höfuð sér.
Bergþór segist, samkvæmt heimildum Viljans, hafa verið að lýsa erfiðri reynslu sem hann hafi orðið fyrir í einkasamtali á meðal vina. Þingkona Samfylkingarinnar hafi gengið svo nærri sér kynferðislega að hann hafi verið lengi að átta sig á því hvað hafði gerst. Og nú virðist hann ekki mega ræða það í einkasamtölum.
Hann hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að aðrir heyrðu til og óhug veki að það sem hann ræði í trúnaði í öruggu umhverfi eigi að nota gegn sér í pólitískum réttarhöldum með þeim hryllingi sem slíku fylgi fyrir sig, vini sína og vandamenn.
Bergþór segir ennfremur að það hryggi sig ósegjanlega, að forsætisnefnd Alþingis ætli sér að nýta þann glæp til að refsa þolendum brotsins og um leið þolendum kynferðisbrota almennt.