Segjast berjast gegn eftirgjöf upp á tugi milljarða gagnvart vogunarsjóðum

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Umfjöllun fjölmiðla um málþóf Miðflokksins á þinginu í gær virðist ekki snúast um efnisatriði málsins nema að litlu leiti,“ segir Frosti Sigurjónsson, fv. þingmaður Framsóknarflokksins. Frosti situr nú í bankaráði Seðlabankans og hann vekur í færslu á fésbókinni athygli á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, hafi sett fram mjög alvarleg gagnrýni á það hve illa fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hafi gætt hagsmuna þjóðarinnar varðandi aflandskrónurnar.

Frosti Sigurjónsson fv. alþingismaður.

„Sé það rétt sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í sinni ræðu er nauðsynlegt að staldra við og kanna rækilega hvaða embættismenn hafa tekið ákvarðanir um að veita aflandskrónueigendum tilslakanir sem gætu verið milljarða eða tugmilljarða virði og hvers vegna þeir töldu slíkar tilslakanir réttlætanlegar. Þetta þarf að gera áður en höftum er létt af þessum 83 milljörðum í aflandskrónum,“ segir Frosti.

Þingfundur var settur á í dag þar sem umræðu um haftamálin er framhaldið. Þingmenn Miðflokksins settu mikinn svip á umræður um málið í gær, sem stóðu fram undir sjötta tímann í nótt og hafa verið sakaðir um málþóf með framgöngu sinni.

Í yfirlýsingu frá Þingflokki Miðflokksins í dag, segir að á þingfundinum í gær og nótt hafi þingmenn Miðflokksins reynt að fá svör við spurningum um áform stjórnvalda um einhliða afléttingu fjármagnshafta af vogunarsjóðum og svör við því hvers vegna ekki sé gætt hagsmuna þjóðarinnar. Hagsmunir sem hlaupi á milljörðum króna.

„Í 2. umræðu um málið hefur enginn fulltrúi þeirra flokka sem styðja málið haldið ræðu til að verja það eða útskýra ef frá er talin framsaga formanns efnahags- og viðskiptanefndar á nefndaráliti. Málið felur í sér algjört og endanlegt fráhvarf frá aðgerðaáætlun stjórnvalda frá árinu 2015 um losun hafta og endurreisn efnahagslífsins.

Sú áætlun byggðist á þremur megin stoðum sem ráðast skyldi í sem eina heild þar sem allir legðu sitt af mörkum til endurreisnarinnar. Þeim þætti sem snýr að lausn aflandskrónuvandans er enn ólokið. Áform stjórnvalda nú ganga þvert á þá lausn sem lagt var upp með og að meginstefnu fylgt til þessa. 

Frá þingflokksfundi Miðflokksins í gær. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Árangur aðgerðanna framan af var einstakur á heimsvísu. Ekkert ríki hefur náð eins miklum og hröðum efnahagslegum viðsnúningi, a.m.k. ekki í seinni tíð, eins og Ísland gerði vegna umræddra aðgerða. Það sætir því furðu að stjórnvöld skuli hafa horfið frá því að ljúka aðgerðunum. Þess í stað er kosið að verðlauna þá vogunarsjóði sem harðast hafa streist á móti aðgerðum stjórnvalda. Með því frumvarpi sem nú er til umræðu er blasir við eftirgjöf stjórnvalda með því að létta einhliða höftum af þeim sem ekki hafa verið fáanlegir til að leggja neitt af mörkum við haftalosunina.

Ítrekuð eftirgjöf stjórnvalda gagnvart vogunarsjóðunum sætir furðu eftir framgöngu þeirra undanfarin ár og er skemmst er að minnast þess þegar áróðursmenn vogunarsjóða reyndu að hafa áhrif á niðurstöðu Alþingiskosninga, m.a. með blaðaauglýsingum.

Eftirgjöfin sem felst í frumvarpinu nú nemur hæglega tugum milljarða en einnig eru áformin til þess fallin að rýra trúverðugleika íslenskra stjórnvalda og sýnir að hægt sé að knýja þau til að hverfa frá yfirlýstri stefnu.

Það vekur furðu að ríkisstjórn sem ekki sér sér fært að afnema skerðingar á aldraða og öryrkja og standa sem vert væri við bak þeirra sem höllustum fæti standa skuli telja sér fært að gefa eftir tugi milljarða króna gagnvart erlendum aðilum sem ekki hafa reynst reiðubúnir til að taka þátt í aðgerðum til að vinna úr afleiðingum efnahagshrunsins. Séu fjárhæðir settar í samhengi myndi eftirgjöfin sem nú er ráðgerð hrökkva langt til að bæta úr skortinum sem við blasir á dvalar- og hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Þetta eru hagsmunirnir sem þingmenn Miðflokksins leitast við að verja á Alþingi í þágu þjóðarinnar,“ segja þingmenn Miðflokksins í yfirlýsingunni.