„Íslenski orkupakkinn virðist ekki árennilegt umræðuefni við fyrstu sýn, en er þegar orðið býsna líflegt. Í fyrstunni ætluðu yfirvöld landsins að renna þessu máli í gegn, enda væri það í senn bæði einfalt mál og sjálfsagt. Eftir að menn úr hópi þeirra sem best þekktu til tóku að benda á að ekki væri allt sem sýndist, voru höfð endaskipti á öllum röksemdum. Nú var málið orðið flókið og þess vegna hefði efasemdarmönnum tekist að skapa óróa í kringum það. Fari svo, að hlaupalið utanaðkomandi hagsmuna, sem kemur kunnuglega fyrir sjónir, láti sig hafa að ganga þessara erinda til enda, má augljóst vera að málið endar í þjóðaratkvæði,“ segir í leiðara Morgunblaðsins í dag.
Er óhætt að segja að leiðarinn beri öll höfundarmerki ritstjórans Davíðs Oddssonar, sem tekið hefur harða afstöðu gegn innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.
„Enn eru rök kerfiskarla mjög í anda umræðunnar um Icesave og nauðhyggjan því fyrirferðarmikil. Þjóðin verður. Áhættan af óhlýðni við Brussel er ekki bara mikil heldur óþekkt sem þenur áhættuna út. Og áhættan er óþekkt af því íslenska embættismannaliðið og þeir ráðherrar sem fyrir það starfa hafa aldrei æmt eða skræmt yfir nokkrum sköpuðum hlut, þótt iðulega hafi verið tilefni til þess, eins og smám saman er að koma í ljós.“
Athygli hefur vakið, að hinn tryggi bandamaður Davíðs, Björn Bjarnason fv. ráðherra, hefur tekið allt annan pól í hæðina gagnvart orkupakkanum og berst fyrir innleiðingu hans.
Davíð tæklar það mál þannig í leiðara dagsins:
„Bestu menn, sem óvænt hafa bitið í sig brusselískuna í þessu máli hafa jafnvel notað það sem rök að þegar hafi verið höggvið í stjórnarskrá landsins í fyrri áföngum sama máls. Það skuli því bitna á þjóðinni nú að hún hafi látið ómerkilega stjórnmálamenn plata sig í tvígang áður.
Sú röksemd minnir á þekkt yfirvald sem sat glaðbeitt á norðanverðu landinu forðum tíð. Margar sögur bárust af því og fóru víða, og undirtónn þeirra var gjarnan gamansamur. Yfirvaldið var enda alþekkt ljúfmenni sem valdi jafnan mildustu leið sem fær var gagnvart þeim sakamönnum sem rak á fjörur þess. Eitt sinn stefndi í það að hann dæmdi sveitunga sinn til frelsissviptingar í tvo mánuði, skilorðsbundið þó, sem vafalítið þótti að þéttbýlisdómarar, fjarlægari fólkinu, hefðu tekið mun fastar á.
En hinn ákærði var þó fjarri því að vera ánægður með silkihanska sýslumanns og þau úrslit sem stefndi í. Hann sagðist hafa framið sams konar brot tvisvar áður og ekki verið ákærður, hvað þá dæmdur fyrir þau. Sýslumaður horfði þreytulegur á kauða og sagði: „Þú færð einn fyrir viðleitni,“ sem virtist gleðja þann síðarnefnda. En úr því dró nokkuð þegar sýslumaður bætti einum mánuði við dóminn og undirritaði hann svo. Eftir óvænta upprifjun ákærða á „einbeittum brotavilja“ sínum gat sýslumaður ekki „gleymt“ fyrri ávirðingum eins og óviljandi við dómfellinguna.“