Í leynilegri skýrslu svissnesku leyniþjónustunnar, Nachrichtendienst des Bundes (NDB), er hluti Svisslendinga sem leggja stund á rússneska bardagakerfið Systema í skyndiárásarhópi sem Rússar halda úti með mikilli leynd.
Blaðamenn svissneska blaðsins SonntagsBlick hafa fengið að skoða skýrslu NDB og reisa frásögn sína á henni.
Þjálfunin að baki þátttöku í hópnum fer fram í íþróttafélögum þar sem Systema er meðal þess sem æft er. Markmiðin eru ýmisleg en höfuðmarkmiðið er að leggja grunn að svonefndum „sofandi sellum“, það er að skapa tengsl við almenna borgara sem eiga ekki að gera annað en lifa venjulegu lífi í samfélagi sínu. Mestu skiptir þó að þeir eru skuldbundnir til að „vakna“ þann dag sem ráðamenn í Moskvu telja sig hafa þörf fyrir þá. Þá verður hlutverk þeirra skapa ólgu og öryggisleysi með framgöngu sinni.
Bardagaíþróttin er sögð notuð til að ná virkja nýja einstaklinga í borgunum Zürich, Bern og Lugano. Sérstaklega er beint athygli að félaginu í Zürich. Í merki þess er höfuð af úlfi og segir blaðið Blick að merkið sýni tengsl við félagið Wolf-Holding (eignarhaldsfélagið Úlf) í Moskvu sem helgar sig öryggismálum og stendur að félagi um bardagaíþróttir.
Einn kennaranna í Zürich-skólanum gengur oft í einkennisbúningi með rússneska fánann á erminni. Hann er Denis Rjauzov sem var áður í sérstakri deild í njósnastofnun rússneska hersins, GRU. Hann er á bannlista Bandaríkjastjórnar fyrir að hafa aðstoðað aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Falið stríð Pútíns
Þá er bent á að svipaða sögu sé að segja um skólann í Bern. Þar kenni bardagamenn sem hafi verið sæmdir heiðursmerkjum. Einn þjálfaranna er sagður standa nærri dómsmálaráðherra Rússlands og þar með Vladimir Pútin forseta.
Í bardagaskólunum í Sviss er hafnað öllum tengslum við GRU. Þýski blaðamaðurinn Boris Reitschuster sem sérhæfir sig í rússneskum málum segir fullyrðingar í þá veru ekki koma á óvart.
Árið 2016 skrifaði hann bók um Systema-netið í Evrópu: Falið stríð Pútíns: Grafið er undan Vesturlöndum frá Moskvu.
Systema – kerfið – er rússnesk bardagaíþrótt sem á rætur í hefðbundinni bardagaaðferð kósakka og slavneskum aðferðum. Þeir sem leggja stund á aðferðina gera það bæði með og án vopna. Hún á vaxandi vinsældum að fagna meðal lögreglumanna og öryggisliða.
Í bókinni segir þýski blaðamaðurinn að almennt höfði systema til fólks sem hver önnur bardagaaðferð. Aðeins fáeinir séu valdir til að ganga lengra, ekki síst þeir sem sinna lög- og öryggisgæslu.
Þeir útvöldu, karlar og konur, séu sendir til Moskvu. Þar sé kennd meðferð sprengiefna og vopna. Reitschuster segir að bara í Þýskalandi hafi allt að 300 manns fengið þessa sérþjálfun:
„Þessir bardagaliðar á Vesturlöndum eru burðarás í földu stríði Pútins.“
Rússinn Dmitrij Chmelnizki, sérfræðingur í njósnastarfsemi, er sammála Reitschuster: „Yfirvöldunum ber tvímælalaust að fylgjast betur með þessum skólum.“
Eftir að hafa rannsakað málið telur hann að í Þýskalandi einu séu 63 Systema-félög. Margir innan þeirra fari ekki dult með samband sitt við Moskvu.
Þegar svissneska leyniþjónustan NDB var spurð um skýrsluna sem sagt var frá í Blick vildi Caroline Bohren, upplýsingafulltrúi NDB, ekkert um efni hennar segja en fylgst væri með bardagaskólunum.
Í þýsku útgáfu vefblaðsins Huffington Post segir að Systema-skólum fjölgi hratt í Evrópu. Á undanförnum sjö árum hafa þeir fest rætur í Þýskalandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Ítalíu, Serbíu og Sviss.
Í Þýskalandi hefur einnig verið stofnað útibú frá rússneska vélhjólaklúbbnum Náttúlfarnir en formaður rússneska klúbbsins er handgenginn Pútin.
Af vardberg.is, birt með leyfi.