Svo virðist sem velferðarkerfið okkar raði málefnum aldraðra ekki ofarlega á forgangslistann, því þrátt fyrir fögur fyrirheit halda biðlistar eftir hjúkrunarrýmum áfram að lengjast.
Um áramótin 2018/2019 voru 395 einstaklingar á biðlista eftir varanlegri dvöl í hjúkrunarrými sem jafngildir 31,7 á hverja 1.000 íbúa 80 ára og eldri (31,7/1.000). Fimm árum fyrr var samsvarandi hlutfall 23,0/1.000.
Vart þarf að taka fram að ótal stjórnmálamenn hafa í millitíðinni lofað bót og betrun og að nær fordæmalausir uppgangstímar voru í íslensku efnahagslífi á þessu tímabili, en staðreyndin er samt sú að staðan hefur ekki batnað sl. fimm ár þrátt fyrir fyrirheit þar um — heldur versnað umtalsvert.
Lengri biðlistar hafa leitt til lengri biðtíma, að því er frá greinir á vef Landslæknisembættisins. Árið 2014 biðu 26% þeirra sem fengu hjúkrunarrými lengur en 90 daga eftir rými en árið 2018 biðu 42% lengur en 90 daga.
Embætti landlæknis ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og fylgist reglulega með aðgengi að þeirri þjónustu, svo sem biðlistum og biðtíma.