Biðluðu til forseta Íslands vegna þriðja orkupakkans

Frá fundinum í dag. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Elinóra Inga Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson, Frosti Sigurjónsson og Styrmir Gunnarsson.

Fulltrúar Orkunnar okkar funduðu með forseta Íslands nú í morgun um þriðja orkupakkann. Á fundinum var forsetanum afhent áskorun þar sem skorað er á forsetann að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans inn í EES-samninginn nema að uppfylltum tveimur skilyrðum:

a) sameiginlega EES-nefndin hafi veitt Íslandi undanþágu frá innleiðingu eða b) þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á að undirgangast skuldbindingar orkupakkans. 

Forsetinn tók við bréfi samtakanna með áskorunninni og umsögnum frá liðnu vori um málið ásamt ásamt nýlegri gögnum um málið, að því er segir í tilkynningu frá Orkunni okkar.

Um er að ræða skýrslu samtakanna um  áhrif inngöngu Íslands í orkusamband ESB og minnisblöð Anars Þórs Jónssonar, héraðsdómara, og Tómasar Jónssonar, hrl. 

Í bréfinu til forsetans eru helstu þættir málsins raktir í stuttu málið og minnt á hugsanlegar afleiðingar verði innleiðing orkupakkans samþykkt.

„Úr því sem komið er, sjá samtökin Orkan okkar því ekki önnur úrræði í stöðunni en að skora á forseta Íslands að bíða með að staðfesta þriðja orkupakkann inn í EES-samninginn þar til Ísland hefur fengið undanþágu frá innleiðingu hans eða þjóðin hefur í þjóðaratkvæðagreiðslu fallist á þær skuldbindingar sem í orkupakkanum felast.“ segir í lok bréfsins.