„Ég er þeirrar skoðunar að leigubílstjórar og viðskiptavinir þeirra eigi inni afsökunarbeiðni hjá þingmönnum sem samþykktu breytingar á lögum um leigubílakstur. Sú mynd sem dregin er upp af stöðunni á leigubílamarkaði sé verri en nokkur átti von á. Fréttir af árásum bílstjóra á viðskiptavini, aðallega konur, taxtasvindl og hálf ónýtir bílar hafa stórskaðað ásýnd og starfsstétt leigubílstjóra. Þá hefur framkvæmdin náð ákveðnum hæðum, (lægðum) með fréttum af prófafyrirkomulagi fyrir leigubílslaprófi, harkarapróf.“
Þetta skrifar Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á fésbókina í dag. Hann segir sem gamall félagi í Hrekkjalómafélaginu í Eyjum, að uppfinningasamir félagar í þeim félagsskap hefðu ekki getað fundið upp annan eins furðuhrekk til að gera grín af leigubílstjórastéttinni og aðgengi að henni eins og nú er gert.
„Við verðum að endurskoða þá breytingu sem þingið gerði á lögunum og biðja leigubílstjóra og viðskiptavini þeirra afsökunar á fljótræði þingsins að skapa glundroða í þjónustu leigubílstjóra,“ bætir hann við.