Birgir sagði ósatt um vistaskipti Ernu

Birgir Þórarinsson fv. þingmaður Miðflokksins og nú þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur og varaþingmaður hyggst ekki fylgja Birgi Þórarinssyni úr Miðflokknum og verða varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu. Þetta er þvert á þær yfirlýsingar sem Birgir Þórarinsson gaf um leið og hann tilkynnti brotthvarf sitt á dögunum.

Viljinn sagði frá því í gærkvöldi, að þótt Erna hefði engu svarað fyrirspurnum fjölmiðla um málið, hefði hún í einkasamtölum við stuðningsmenn sína staðfest að hún væri enn í Miðflokknum. Í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun rauf hún loks þögnina og staðfesti að hún yrði áfram varaþingmaður Miðflokksins.

Það þýðir að Miðflokkurinn fær þriðja þingsætið þegar og ef Birgir Þórarinsson forfallast á kjörtímabilinu í lengri eða skemmri tíma.

„Ég hef ekki skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna í Bítinu í morgun. Hafnaði hún því að hún yrði varaþingmaður flokksins.

Birgir Þórarinsson sagði við fréttastofu RÚV á laugardag að Erna færi með honum yfir í Sjálfstæðisflokkinn: „Hún er öflugur varaþingmaður og hefur staðið fyrir mörg góð málefni og telur að hún nái best framgangi með þau mál með því að vera í þá náttúrlega í öflugum og stórum þingflokki þar sem er góður málefnalegur samhljómur.“