Birgitta gerandi, ekki þolandi í andlegu ofbeldi innan raða Pírata

Ásta Guðrún Helgadóttir, fv. þingmaður Pírata, er með tárin í augunum úti í Brussel.

Ásta Guðrún Helgadóttir, fv. þingkona Pírata, kveðst vera með kökk í hálsinum af kvíða yfir nýjustu tíðindum af átökum innan Pírataflokksins og uppgjörinu við Birgittu Jónsdóttur á dögunum. Þetta ýfi upp áfallastreituna sem hún hafi verið að vinna við síðan hún hætti á þingi. Varaþingmaður flokksins segir Birgittu hafa staðið fyrir andlegu ofbeldi gagnvart samstarfsfólki sínu og hún sé gerandi en ekki þolandi, þótt hún láti líta út fyrir annað.

Myndband frá fundi Pírata um kosningu í trúnaðarráð, sem Viljinn birti í vikunni, vakti gríðarlega athygli. Þar lét Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður flokksins, Birgittu Jónsdóttur heyra það, svo vægt sé tekið til orða, og endaði með því að Birgitta sagði um mannorðsmorð að ræða og rauk grátandi á dyr.

Sara Elísa Þórðardóttir, varaþingkona Pírata, segir í viðtali við Stundina í dag, að Birgitta Jónsdóttir hafi beitt samstarfsfólk andlegu ofbeldi og tekur undir lýsingu Helga Hrafns á samskiptaháttum hennar. Hún telur að það hafi löngu verið orðið tímabært að þingmenn upplýstu grasrótina um hvernig hún hafi komið fram.

Ef það er eitthvað sem ætti að gagnrýna er það að við skyldum ekki gera þetta fyrir lifandi löngu

„Ef það er eitthvað sem ætti að gagnrýna er það að við skyldum ekki gera þetta fyrir lifandi löngu,“ segir Sara í samtali við Stundina. „Hvort sem þú stofnar hljómsveit, fjölskyldu eða stjórnmálaflokk, þá gefur það þér engan rétt til að beita meðlimi alvarlegu andlegu ofbeldi. Birgitta Jónsdóttir er ekki þolandinn í þessu máli. Hún er gerandinn.“

Sara Þórðardóttir Oskarsson, varaþingmaður Pírata.

Ásta Guðrún tekur undir þetta. „Þetta lýsir bara ágætlega því sem ég þurfti að díla við í tvö ár af samstarfi við þessa konu, sem var það erfitt að það þurfti að kalla til vinnustaðarsálfræðings. Deila og drottna, skapa sundrungu. Að ráða ríkjum í óreiðunni,“ segir hún í færsu á fésbókinni.

Hún segir þetta ýfa upp gömul sár og einhverntíḿann vilji fólk fá að halda áfram.

„Þetta er kannski ákveðið uppgjör, sem hjá mér byrjaði með því að labba inn í þingflokk sem var svo þrunginn ósætti að það þurfti að kalla á vinnustaðarsálfræðing, ein besta ákvörðun sem ég tók á mínum stutta ferli sem þingmaður.

Ég er enn að vinna mig úr þessu tímabili, sem held ég verði með erfiðustu árum lífs míns, enda erfitt að toppa. Það að sjá aðra tala eins og úr mínu hjarta um þetta samstarf er ákveðin viðurkenning á því sem ég upplifði. Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér,“ bætir hún við.