„Ég hef ekkert tjáð mig um þriðja orkupakkann, en satt best að segja þá finnst mér alveg eðlilegt að málinu verði frestað fram á haustþing og kostir og ókostir ræddir frekar,“ segir Birgitta Jónsdóttir, fv. leiðtogi Pírata.
Allir núverandi þingmenn Pírata styðja innleiðingu þriðja orkupakkans og hafa tekið virkan þátt í umræðunni og gagnrýnt framgöngu þingmanna Miðflokksins fyrir andstöðu þeirra.
En Birgitta er ekki jafn hrifin:
„Þetta er stórt mál sem opnar á miklar breytingar ef sæstrengur verður lagður og ég hef setið of marga fundi með fólki með gullæðisglampa í augum varðandi svona sæstreng á meðan ég var á þingi til að afskrifa að slíkt sé ekki á einhverjum kortum,“ segir hún á fésbókinni í kvöld.