Bjarni Ben: Yfirráðin færast ekki til ESB með þriðja orkupakkanum

Bjarni Benediktsson og Óli Björn Kárason. / Ljósmynd: Sjálfstæðisflokkurinn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagði á þingi í dag, að innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins sé ekki í andstöðu við landsfundarályktun flokksins frá í fyrra um orkumál, þar sem yfirráð yfir orkumálum séu ekki að færast til ESB.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, rifjaði upp samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins og ummæli Bjarna sjálfs frá í fyrra, þar sem hann spurði Þorstein Víglundsson, varaformann Viðreisnar, út í það hvers vegna við Íslendingar ættum að vilja komast undir boðvald samevrópskra stofnana.

„Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?,“ var meðal þess sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í þingræðu í fyrra.

Á þingi í dag sagði Bjarni hins vegar að innleiðing þriðja orkupakkans nú sé ekki þess eðlis að yfirráð yfir íslenskum raforkumarkaði flytjist til stofnana Evrópusambandsins.

„Við þurfum að gera greinarmun — og nú er ég að vísa til þess hvernig málið er lagt fyrir þingið — á orkumálum sem hluta af Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem raforka hefur frá upphafi verið skilgreind sem vara sem samræma þurfi reglur um, og fjórði hluti samningsins er grundvöllur undir viðskiptum margra innlendra aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Það þarf að gera greinarmun á þessu og síðan hinu sem er raforkustefna í einstaka löndum. Nú er það þannig að við erum ekki bundin raforkustefnu, orkumálastefnu Evrópusambandsins, heldur högum við þeim málum eftir eigin óskum á Íslandi. Við setjum okkar eigin stefnu um orkumál, erum með orkuauðlindir í opinberri eigu og almennt vinnsluna í opinberum fyrirtækjum. Að því leyti til eru raforkumálefni Íslands enn í okkar höndum og verða áfram,“ sagði Bjarni.