Bjarni fær heimild til sölu á margvíslegum ríkiseignum um land allt

Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra er samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, veitt heimild til margskonar viðskipta með eignir í eigu ríkisins. Má þar nefna fasteignir sem hýsa Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu við Hlemm, Héraðsdóm Reykjavíkur við Lækjartorg og Tollhúsið við Tryggvagötu.

Í fjárlagafrumvarpinu er meðal annars óskað eftir heimild til að:

  • Að selja húseignir ríkisins við Guðrúnartún 6, Borgartún 5 og 7 í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði.
  • Að selja húsnæði dómstóla, lögreglu- og sýslumannsembætta og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði í tengslum við endurskipulagningu starfseminnar.
  • Að leigja húseignina Skólavörðustíg 9, Reykjavík.
  • Að selja óhentugar eða óhagkvæmar húseignir utanríkisþjónustunnar erlendis og kaupa eða leigja hentugra húsnæði.
  • Að selja fyrrum fasteign Landhelgisgæslunnar við Seljaveg 32 í Reykjavík ásamt lóð við Mýrargötu og Ánanaust.
  • Að selja á markaði eða ganga til samninga við hlutaðeigandi sveitarfélög um ráðstöfun á fyrrum flugstöðvum á Siglufirði og Norðfirði.
  • Að selja Rauðarárstíg 10 í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði.
  • Að selja Hverfisgötu 113–115 í Reykjavík og kaupa eða leigja hentugra húsnæði fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra.
  • Að selja Tollhúsið við Tryggvagötu 19 í Reykjavík og kaupa eða leigja hentugra húsnæði fyrir starfsemi ríkisins sem nú er í húsinu.
  • Að selja Skógarhlíð 6, Reykjavík, þar sem Sýslumaðurinn í Reykjavík var til húsa.
  • Að selja eignarhlut ríkisins í Hafnarstræti 99–101 á Akureyri og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði.
  • Að selja eyðibýli og húsarústir sem henta vel til endurbyggingar á leigulóð.
  • Að selja Kópavogsbraut 1c, Kópavogi. Gamla Kópavogshælið og síðar Kvennafangelsið.
  • Að selja hlut ríkisins í skrifstofuhúsi fyrrum sementsverksmiðju að Mánabraut, Akranesi.
  • Að selja Austurstræti 19 í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og Landsrétt.
  • Að selja eignarhlut ríkisins í Laugavegi 114 og 116 í Reykjavík.
  • Að selja hluta af landsvæðum ríkisins við Litla-Hraun.
  • Að selja land ríkisins á Keldum, á Keldnaholti og við Úlfarsá, Reykjavík.
  • Að selja lóð í eigu ríkisins við Þjórsárgötu og Þorragötu, Reykjavík.
  • Að selja eignarhlut ríkisins í lóð að Frakkastíg 23, Reykjavík.
  • Að heimila Jarðasjóði að selja eða leigja jörðina Sælingsdal, Dalasýslu.