
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er nýr dómsmálaráðherra, samkvæmt ákvörðun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins sem kynnt var þingmönnum flokksins nú rétt í þessu.
Áslaug Arna er ritari flokksins og formaður utanríkismálanefndar. Hún er lögfræðingur að mennt og 29 ára að aldri. Þar með er ljóst að hún er næstyngsti ráðherrann í sögu íslenska lýðveldisins. Aðeins Eysteinn Jónsson varð ráðherra yngri, en hann varð fjármálaráðherra árið 1934, þá 28 ára gamall.
Bjarni sagði við fréttamenn eftir þingflokksfundinn, að Áslaug sé vel að þessu komin og hún hafi öðlast mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Fyrir liggur, að hún mun láta af embætti ritara Sjálfstæðisflokkins nú þegar hún verður ráðherra, því skipulagsreglur flokksins gera ráð fyrir því að ritari gegni ekki ráðherraembætti.
Eins og Viljinn hefur greint frá, sóttist Brynjar Níelsson eftir því að verða dómsmálaráðherra og jafnvel var talið að málamiðlunartillaga kæmi frá Bjarna um að dómsmálaráðherra yrði þingflokksformaðurinn Birgir Ármannsson.
Niðurstaðan er hins vegar sú að Áslaug Arna tekur við keflinu og að kona gegni áfram þessu mikilvæga ráðherraembætti. Sigríður Á. Andersen sagði sem kunnugt er af sér sem dómsmálaráðherra eftir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu og við tók tímabundið Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins.
Innan Sjálfstæðisflokksins hefur því verið tekið sem gefnu að Áslaug Arna væri óskakandídat Bjarna í þennan ráðherrastól, en hann hafi haft áhyggjur af óróa innan flokksins vegna erfiðra mála að undanförnu, svo sem orkupakkans. Svo er að sjá að Bjarni hafi eftir allt saman ákveðið að láta slag standa og fyrr í dag þóttust menn sjá hvað í stefndi, þegar Áslaug Arna flýtti för sinni heim frá útlöndum, þar sem hún var í opinberum erindagjörðum sem formaður utanríkismálanefndar.