Bjarni Jónsson segir skilið við Siðmennt

Bjarni Jónsson.

Bjarni Jónsson, einn stofnenda Siðmenntar og fv. framkvæmdastjóri lífsskoðunarfélagsins, stjórnaði í dag sinni síðustu athöfn sem athafnarstjóri Siðmenntar.

„Það er við hæfi að enda með útför, en ég hef annast þær auk nafngjafa, hjónavígslna auk fermingastjórnunar frá því að hafa fengið þjálfun í fyrsta hópi athafnarstjóra árið 2007,“ sagði Bjarni á spjallvef Siðmenntar í dag.

Um var að ræða 121. athöfnina sem Bjarni stjórnar, en hann kveðst einnig hafa sagt sig úr félaginu sem hann tók þátt í að stjórna.

„Ég tók þátt í að því að byggja upp og treysta grundvöll að öflugu lífsskoðunarfélagi en er nú búinn að skrá mig úr Siðmennt,“ segir Bjarni ennfremur og bætir því við að leiðir skilji þar sem hann treysti sér ekki til að styðja félagið miðað við það sem gengið hafi á síðustu vikur, en Viljinn hefur að undanförnu greint frá hörðum átökum innan félagsins um stjórnun, fjármál og fleira.

Hallarbylting og illdeilur

Var stjórn vikið frá með því sem kallað var hallarbylting á aðalfundi, en flestir úr henni eru nú hættir eftir harðar illdeilur innan félagsins undanfarna daga.

Heimildamenn Viljans innan Siðmenntar segja að brotthvarf Bjarna sæti miklum tíðindum; nafn hans og félagsins hafi verið tengt órjúfanlegum böndum í tæplega þrjátíu ár.  Hann er einn af stofnfélögum Siðmenntar og hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2000, verið varaformaður og framkvæmdastjóri og fulltrúi félagsins í samstarfi norrænna samtaka húmanista.

Siðmennt var stofnuð fyrir 29 árum. Í upphafi var um að ræða fámennan hóp sem fjölgaði hægt en sígandi. Þann 3. maí 2013 hlaut félagið skráningu sem veraldlegt lífskoðunarfélag en breyting á lögum um skráð trú- og lífskoðunarfélög gerði skráninguna mögulega. Þetta varð til þess að eftirspurn eftir veraldlegum og húmanískum athöfnum jókst mjög. Sérstaklega hefur giftingum fjölgað mikið en einnig er fjölgun í nafngjöfum og félagið sinnir einnig borgaralegum fermingum og útförum, að því er segir á vef félagsins.