Bjarni krefur ríkisfyrirtæki svara um launaákvarðanir

Bjarni Benediktsson hættir brátt sem fjármálaráðherra / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sendi í dag stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu bréf þar sem þess er óskað að þær upplýsi fjármála- og efnahagsráðuneytið um það hvernig brugðist hefur verið við tilmælum ráðuneytisins, sem send voru stofnunum í janúar 2017 og síðar ítrekuð, um að gæta varkárni við launaákvarðanir.

Bréfið var einnig sent til Bankasýslu ríkisins sem annast eignarhald fjármálafyrirtækja og samskipti við stjórnir þeirra.

Bréfið er svohljóðandi:

„Þann 6. janúar 2017 sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið erindi til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu, vegna ákvörðunar launa og starfskjara framkvæmdastjóra félaga í meirihlutaeigu ríkisins, sem féllu þann 1. júlí 2017 undan ákvörðunarvaldi kjararáðs með lögum nr. 130/2016. Erindið var einnig sent til stjórnar Bankasýslu ríkisins í þeim tilgangi að stjórnir fjármálafyrirtækja í ríkiseigu yrðu upplýstar um efni þess. Erindið var sent aftur til stjórna og Bankasýslunnar, eftir að ársfundir félaganna höfðu verið haldnir og þeim kosnar nýjar stjórnir, með tölvubréfi ráðuneytisins þann 30. júní 2017.

Í erindinu var vísað til ákvæða almennrar eigandastefnu ríkisins og eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki um launastefnu. Var því beint til stjórna, m.a. með tilvísun til mikilvægis stöðugleika á vinnumarkaði, að launaákvarðanir yrðu varkárar og að forðast yrði að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili. Ráðuneytið beindi þeim tilmælum til stjórna að erindið yrði kynnt á stjórnarfundi og haft til hliðsjónar við launaákvarðanir. Einnig var þess óskað að erindi ráðuneytisins yrði sent dótturfélögum, þar sem ákvarðanir um laun framkvæmdastjóra þeirra hefðu fallið undir kjararáð.

Ráðuneytið aflar nú reglubundið upplýsinga um launakjör framkvæmdastjóra félaga í ríkiseigu, sbr. 39.a. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Upplýsingar um þróun launakjara framkvæmdastjóra ýmissa félaga í eigu ríkisins benda til þess að ekki hafi í öllum tilfellum verið farið að ofangreindum tilmælum. Svo virðist sem hluti stjórna hafi ekki tekið tillit til tilmæla ráðuneytisins um að ekki verði ákvarðaðar miklar launabreytingar á stuttu tímabili og að launastefna endurspegli ekki aðeins samkeppnishæfni heldur einnig hófsemi og að varfærni sé gætt í launaþróun. Sé sú raunin má ætla að gengið hafi verið á svig við ákvæði eigandastefnu.

Af þessu tilefni er óskað eftir því að stjórnir og Bankasýsla ríkisins upplýsi fjármála- og efnahagsráðuneytið um það hvernig brugðist hafi verið við þeim tilmælunum sem beint var til þeirra með bréfi ráðuneytisins frá janúar 2017, sem síðar var ítrekað, og í hvaða mæli þau hafa verið höfð til hliðsjónar við ákvörðun launa framkvæmdastjóra. Hafi stjórnir ákvarðað framkvæmdastjórum launahækkanir umfram almenna launaþróun, er óskað eftir því að þær færi rök fyrir þeim ákvörðunum með tilvísunar til eigandastefnu.

Einnig er þess óskað að bréfið verði sent stjórnum dótturfélaga, þar sem laun framkvæmdastjóra féllu áður undir kjararáð og þær beðnar um að upplýsa fjármála- og efnahagsráðuneytið um sömu atriði.

Athygli Bankasýslu ríkisins er vakin á því að tilmælin eiga einnig við um Íslandsbanka og skal þá gerð grein fyrir með hvaða hætti ákvarðanir um laun bankastjóra tóku mið af úrskurði kjararáðs (2017.4.003), sem skilgreindi sambærileg viðmið um launasetningu bankastjórans og giltu um laun annarra framkvæmdastjóra félaga, þó að úrskurðurinn hafi ekki komið til framkvæmda fyrir ofangreinda lagabreytingu. Þá er óskað eftir því að Bankasýsla upplýsi hvort og með hvaða hætti starfskjarastefna Íslandsbanka tók breytingum þegar eignarhald bankans færðist frá einkaaðilum og til ríkisins. 

Óskað er eftir því að erindi þessu verði svarað innan viku eða eigi síðar en 20. þ.m.“

Bréf fjármála- og efnahagsráðherra til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu frá janúar 2017