Bjarni lét Katrínu ekki vita um ákvörðun sína

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra bar ekki þá ákvörðun að frysta amk. tímabundið framlög til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) undir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra áður en hún var kynnt opinberlega. Þetta upplýsti forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.

„Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi verið upplýst um þessa ákvörðun. Svo var ekki. Þetta er ákvörðun sem heyrir undir utanríkisráðherra og ég vissi af henni þegar hún hafði verið tekin,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, en Vinstri græn hafa gagnrýnt utanríkisráðherra fyrir að hafa ekki haft samráð við utanríkismálanefnd Alþingis um ákvörðunina.

Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks VG, hefur gagnrýnt samráðsleysið opinberlega og undir það tók forsætisráðherra í samtölum við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í morgun, þar sem málið var rætt.

Nú er hins vegar ljóst að forsætisráðherrann sjálfur vissi ekki af ákvörðuninni fyrr en hún hafði verið kynnt, sem verður að teljast óvenjulegt í svo umdeildu máli. Skemmst er að minnast þess þegar atkvæði Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um ályktun vakti hörð viðbrögð seint á síðasta ári, en mikil umræða spannst þá um upplýsingagjöf utanríkisráðuneytisins til forsætisráðuneytisins í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.

Til stendur að utanríkisráðherra eigi fund með utanríkismálanefnd Alþingis á morgun vegna málsins.