„Mín sýn er að þessir flokkar eigi að ljúka kjörtímabilinu. Sama hvað skoðanakönnunum líður, sama hvað vaxstastiginu líður. Við erum flokkar með mjög breiðan og styrkan meirihluta á þinginu. Mér finnst augljóst að flokkar sem hafa í tvígang gert með sér stjórnarsáttamála eigi að stefna að því að ljúka kjörtímabilinu,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í viðtali við Gísla Frey Valdórsson í nýjasta þætti Þjóðmála.
Bjarni segir í viðtalinu „ekkert einfalt“ að sitja í þriggja flokka ríkisstjórn og slíkt bjóði upp á allskonar gagnrýni vegna málamiðlana. „En mér finnst við hafa skyldu til þess að tryggja ákveðna stjórnfestu og gera eins mikið og hægt er með þau spil sem við höfum á hendi,“ segir hann og tiltekur að stjórnarflokkarnir hafi mjög breiðan og stóran meirihluta á þingi, gott traust sé á milli forystumanna þeirra eftir langt samstarf og á því þurfi að byggja framhaldið.
„Við erum þroskaður stjórnmálaflokkur og við erum með reynslu. Við tökum því mjög alvarlega að framkvæma lýðræðið eins og vel og hægt er. Þetta er niðurstaða kosninganna. Getur þú unnið með þessa niðurstöðu eða getur þú það ekki? Ætlar þú bara að taka þína stefnu og vera með einhvern fægiklút og vera að pússa hana allan daginn og spegla þig í stefnunni, passa að það varpi enginn skugga á hana? Ætlar þú bara að vera í höfuðstöðvum flokksins og halda áfram að dýpka stefnuna og breikka hana og láta aðra stjórna landinu á meðan? Eða ætlar þú að taka þátt í því að stjórna landinu, gera málamiðlanir, koma því sem hægt er að við stjórn landsmálanna af þínum stefnumálum? Sýna hæfilegt tillit til lýðræðislegrar niðurstöðu kosninganna, sem tryggðu öðrum flokkum sæti á þinginu og sæti við ríkisstjórnarborðið og treystir þú þér til þess að vinna úr þessu? Þetta er það sem þetta snýst um,“ sagði Bjarni.
„Ég horfi á það sem mikilvægan prófstein á stjórnarsamstarfið að ljúka þessu þingi vel. Klára mál, sýna að við getum skilað árangri í samstarfi okkar. Síðan kemur sumarhlé og þá kemur þessi síðasti heili þingvetur. Það koma fjárlög og það verða ýmsar áskoranir sem við þurfum að fást við í millitíðinni sem við sjáum ekki allar fyrir í dag en á haustþinginu verður áfram unnið að þessum stærri verkefnum,“ segir hann.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan.