Bjarni valdi Fréttablaðið í stað Moggans fyrir grein í tilefni 90 ára afmælisins

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar 90 ára afmæli sínu í dag, en flokkurinn var stofnaður þann 25. maí 1929 með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslylda flokksins. Til að fagna þessum tímamótum stendur flokkurinn fyrir viðburðum víðsvegar um land – sjá nánar hér.

Í Reykjavík verður afmælinu fagnað með veglegri fjölskylduhátíð við Valhöll, Háaleitisbraut 1, kl. 11-13 þar sem boðið verður upp á veitingar, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins ávarpar gesti og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur leikur nokkur lög.

Á afmælisdegi flokksins urðu tímamót í stjórnmála- og fjölmiðlasögu landsins með því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, birtir heilsíðugrein í tilefni dagsins í Fréttablaðinu en ekki Morgunblaðinu, eins og gert hefur verið við slík tímamót undanfarna áratugi hér á landi.

Morgunblaðið — undir stjórn Davíðs Oddssonar, fv. formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra — hefur gagnrýnt núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins harðlega fyrir afstöðu sína í mörgum málum upp á síðkastið, nú síðast í breytingum á lögum um fóstureyðingar og innleiðingu á orkupakka þrjú.

Í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag er að finna þessa sendingu til Sjálfstæðisflokksins:

Sjálfur sendir Bjarni lítt dulbúin skeyti til Davíðs og Morgunblaðsins í Fréttablaðsgrein sinni þegar hann ræðir alþjóðamál og afstöðu flokksins til fullveldisins.

„Með því að standa trúr við grunnstefin sem slegin voru fyrir 90 árum hefur flokkurinn verið brimbrjótur í sókn fámennrar þjóðar úr fátækt til velmegunar. Oft hefur gefið á bátinn. Aukið einstaklings- og atvinnufrelsi fékkst ekki án átaka. Að koma þjóð úr höftum var barátta. Að berjast gegn afturhalds­öflum kallar á pólitískan kjark. Forystufólk Sjálfstæðisflokksins hefur skilið hve mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að hræðast ekki opin og gagnkvæm samskipti við aðrar þjóðir – skilið betur en aðrir hve mikilvægt það er að nýta fullveldið til að eiga alþjóðlegt samstarf, hvort heldur er í öryggis- og varnarmálum, í frjálsum viðskiptum, eða á sviði lista og menningar. Sjálfstæðisflokkurinn hræðist ekki fullveldið heldur vill nýta það til heilla fyrir land og þjóð.

Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra.

Tilvera flokksins byggist á því að rækta sambandið við almenning og eiga við hann erindi. Til þess þarf að slípa og móta hugmyndir í takt við nýja tíma og áskoranir – skapa sýn til framtíðar. Það getur aldrei verið sjálfstætt markmið fyrir stjórnmálaflokk að lifa af í umróti samtímans. Stjórnmálaflokkur sem hefur engan annan tilgang verður aldrei hreyfiafl breytinga – verður aldrei kjölfesta sem öll samfélög þurfa á að halda. Stjórnmálaflokkur sem er á flótta undan samtíðinni, hræðist breytingar, forðast nýja hugsun og hleypur undan áskorunum framtíðarinnar, mun visna upp. Slíkur stjórnmálaflokkur hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið. Þvert á móti.

Markmiðið í upphafi var að Íslendingar yrðu þjóð meðal þjóða. Alþjóðaviðskipti og alþjóðleg samvinna hefur verið og verður einn af hornsteinum sjálfstæðisstefnunnar. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn rutt brautina fyrir það alþjóðasamstarf sem skipt hefur þjóðina hvað mestu. Ólafur Thors var forsætis- og utanríkisráðherra þegar Ísland sótti um aðild að Sameinuðu þjóðunum, Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra þegar Ísland gekk í NATO og forsætisráðherra þegar við gerðumst aðilar að EFTA. Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður. Afstaða okkar sjálfstæðismanna til alþjóðlegrar samvinnu hefur alltaf verið skýr og einörð. Við höfum staðið vörð um fullveldið og nýtt þá möguleika sem sjálfstæðið gefur okkur í alþjóðlegu samstarfi.“