Björn Bjarnason segir Davíð Oddsson svæsinn og seinheppinn

Björn Bjarnason fv. ráðherra var lengi aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins.

„Hafi það verið ætlun höfundar Reykjavíkurbréfs að breyta viðhorfi okkar skýrsluhöfunda með atlögu sinni eða leggja á annan hátt stein í götu okkar með niðrandi ummælum sínum er hann seinheppinn,“ segir Björn Bjarnason fv. ráðherra á heimasíðu sinni í dag, þar sem hann svarar Reykjavíkurbréfi Davíðs Oddssonar í Morgunblaðinu, þar sem Björn var sagður augljóslega algjörlega vanhæfur til að leggja trúverðugt mat á stöðu EES-samningsins.

Björn er formaður starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipaði til að leggja mat á EES-samninginn og þýðingu hans fyrir Ísland, nú þegar hann fagnar 25 ára afmæli. Ásamt Birni eru lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir í hópnum.

Björn segir í pistli sínum að Davíð noti nafnleysi Reykjavíkurbréfsins og sé svæsnastur þegar hann fjalli um sig og starfshópinn og meint vanhæfi hans.

„Hvað eftir annað hefur þeirri skoðun verið lýst í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins að ríkisstjórnin hafi verið beitt hótunum um framtíð EES-samstarfsins án þess að skýrt hafi verið frá því hverjir hótuðu þessu. Nú er sökudólgur dreginn fram í dagsljósið. Það er starfshópur sem ég veitti formennsku og í sátu lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir. Við eigum að hafa misst fótanna í orkupakkamálinu „fyrstir allra“ og erum þess vegna algjörlega vanhæf til að leggja trúverðugt mat á EES-samninginn,“ segir Björn og fullyrðir að af og frá sé að verkefni hópsins hafi verið að bera í bætifláka fyrir málatilbúnað utanríkisráðherra í orkupakkamálinu.

Það sé einnig rangt hjá höfundi Reykjavíkurbréfs að hópurinn hafi flutt utanríkisráðherra eða öðrum einhverjar hótanir um framtíð EES-samningsins vegna þessa máls. Menn verði kynna sér efni skýrslunnar áður en þeir fella dóm um hana, minna verði varla krafist.

„Hafi það verið ætlun höfundar Reykjavíkurbréfs að breyta viðhorfi okkar skýrsluhöfunda með atlögu sinni eða leggja á annan hátt stein í götu okkar með niðrandi ummælum sínum er hann seinheppinn. Við höfum lokið störfum og bíðum þess eins og aðrir að lokið verði umbroti og prentun skýrslunnar til kynningar af utanríkisráðherra,“ segir Björn Bjarnason.