Óhjákvæmilegt er að spyrja um rök Morgunblaðsins í umræðum um þriðja orkupakkann. Blaðið helgar honum mikið rými, segir Björn Bjarnason fv. ráðherra. Hann fjallar á vefsíðu sinni um harðorðan leiðara Davíðs Oddssonar í blaðinu í dag, sem Viljinn sagði frá í morgun.
Björn bendir á að í leiðara blaðsins í dag sé efnislega afstaðan sú að verið sé að flytja „aukin yfirráð yfir orkumálum Íslendinga til ESB“, ekki sé „algjörlega öruggt að valdatilfærslan á orkumálum brjóti gegn íslensku stjórnarskránni, enda megi skoða það atriði síðar!“ Þá er hæðst að þeirri skoðun að EES-samningnum kunni að verða stefnt í hættu sé kröfum um „valdaframsalið“ ekki hlýtt. Enn segi í leiðaranum að í þessu máli sé um það að ræða hvort hlýða eigi „kröfum ónefndra skrifstofumanna í Brussel sem hafi sagt við ónefnda skrifstofumenn á Rauðarárstígnum að ella sé EES-samningurinn í uppnámi. Engu virðist breyta þótt ekki sé fótur fyrir þessum hótunum og þær styðjist ekki við nein gögn um þennan samning.“
Björn segir hvergi rökstutt í leiðaranum að verið sé að flytja „aukin yfirráð yfir orkumálum Íslendinga til ESB“. Hafi einhver yfirráð á þessu sviði verið flutt héðan til ESB hafi það verið gert með aðildinni að EES-samningnum 1994 eða breytingu á raforkulögunum 2003. Ákvæði sem þá voru leidd í lög eru útfærð nánar með innleiðingu þriðja orkupakkans þar sem mælt er fyrir um aukið sjálfstæði Orkustofnunar til að tryggja að markaðssjónarmið ráði á íslenskum orkumarkaði.
„Athugað var fyrir 1994 hvort aðild að EES-bryti í bága við stjórnarskrána. Málið var umdeilt meðal lögfræðinga en samningurinn var talin rúmast innan stjórnarskrárinnar.
Fjölmargir lögfræðingar hafa nú fjallað um þriðja orkupakkann, stjórnarskrárþáttinn og annað. Tveir þeirra sem veittu stjórnvöldum álit höfðu fyrirvara en féllu frá honum með vísan til röksemda sem þeim voru kynntar. Annar þessara tveggja lögfræðinga telur unnt að rannsaka stjórnarskrárþáttinn að nýju verði flutt frumvarp á alþingi um heimild til að leggja sæstreng. Að viðhorfi þessa lögfræðings er vikið í leiðaranum en látið eins og um skoðun stjórnvalda sé að ræða.
Á borði stjórnvalda hér í níu ár
Þriðji orkupakkinn hefur verið á borði íslenskra stjórnvalda frá árinu 2010. Hann var grandskoðaður innan stjórnarráðsins og á alþingi. Í maí 2017 var samþykkt að innleiða hann í EES-samninginn. Að málinu var staðið eins og hverju öðru EES-máli. Stjórnvöldum ber að standa við ákvarðanir sem teknar eru á sameiginlegum vettvangi EES-samstarfsins. Að það þurfi einhverjar sérstakar skýringar á því í þessu máli eins og gefið er til kynna í leiðaranum er óútskýrt. Sérfróðir menn telja ekki skynsamlegt að taka áhættu vegna þessa máls með því að hverfa frá sameiginlegu EES-ákvörðuninni. Ef til vill eru þau ráð „hótunin“ sem nefnd er í leiðaranum.
Morgunblaðið skuldar lesendum sínum skýringu á „valdaframsalinu“ sem það telur felast í þriðja orkupakkanum og er forsenda andstöðu blaðsins við hann. Andstaðan blaðsins birtist einnig í leiðara ViðskiptaMoggans miðvikudaginn 26. júní. Þar er almennt farið jákvæðum orðum um EES-samninginn en síðan segir:
„Í mörgu tilliti er nú í þokkabót reynt að nýta [EES-]samninginn til þess að draga úr sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Það á m.a. við þegar kemur að orkulöggjöfinni. Henni er ætlað að tengja saman „fjærstu löndin“ hvað sem tautar og raular og tryggja að endanlegt ákvörðunarvald varðandi markaðinn sé í höndum annarra en þeirra sem auðlindirnar eiga.“
Þessi orð þarfnast frekari skýringar. Þau eru reist á kenningunni um valdaframsal í orkumálum og látið að því liggja að það nái til Íslands. Hafi Morgunblaðið rök fyrir því á að birta þau,“ segir Björn Bjarnason.