Björn Leví segist þurfa að fara til sálfræðings til að geta unnið með Bergþóri

„Ég var ósáttur við að hann væri í herberginu,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata í samtali við Viljann um ástæður þess að hann yfirgaf nefndarfund umhverfis- og samgöngunefndar í morgun, 10 mínútum áður en fundinum lauk formlega. Björn Leví vísaði þar til Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, sem veitir nefndinni formennsku. Aðspurður hvort það væri vegna óánægju vegna frávísunar á tillögu sem borin var fram á fundinum, um að Bergþór viki sem formaður nefndarinnar, kvað hann svo ekki vera.

„Ég er með þá afstöðu að þolendur eigi ekki að þurfa að víkja, heldur eiga gerendur að fara, ég upplifði að það væri ofbeldismaður í herberginu. Ég veit ekki hvort að ég get unnið með honum,“ sagði Björn Leví ennfremur, og sagðist endurupplifa samtöl Bergþórs og annarra þingmanna af Klausturbar í hvert sinn sem honum yrði litið út um gluggann á Alþingishúsinu, þar sem Klausturbarinn blasir við.

Spurður hvort hann upplifði sjálfan sig sem þolanda í Klausturmálinu, kvað Björn Leví svo ekki vera og þegar hann var spurður um hvort að hann þekkti 8. gr. siðareglna Alþingis sem kveður á um að þingmenn skuli ekki „sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt“, kvaðst hann hafa málefnalegar ástæður fyrir að bregðast við á þann hátt sem hann gerði.

„Ég þarf að fara til sálfræðings til að geta unnið með honum [Bergþóri Ólasyni], því að ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram að vinna með honum.“

Engu skárra en á Klaustri

Bergþór Ólason segir í samtali við Viljann, að fundurinn í morgun hafi verið athyglisverður. Mikilvægt sé að tekist hafi að afgreiða samgönguáætlun út úr nefndinni, en orðbragðið sem viðhaft hafi verið í sinn garð hafi verið engu betra en á Klausturbarnum forðum.

Hann hafi beðist einlæglega afsökunar, en hann ætli ekki að láta pólitíska andstæðinga svipta sig réttinum til að hafa áhrif, þar sem hann starfi í umboði sinna kjósenda. 

Hann kveðst hafa átt von á einhverjum átökum, en hann sé staðráðinn í að vinna sína vinnu og láta verkin tala. Hann hafi beðist einlæglega afsökunar, en hann ætli ekki að láta pólitíska andstæðinga svipta sig réttinum til að hafa áhrif, þar sem hann starfi í umboði sinna kjósenda. Hann eigi stjórnarskrárvarinn rétt á að sækja þing og sinna sínum skyldum, eins og flestir þingmenn geri sér grein fyrir.

Hann bætir því við að sum ummælin í sinn garð, sem féllu á fundinum, hefðu ekki komið vel út á prenti eða í upptökum, en hann væri bundinn trúnaði um það og ætlaði ekki að rjúfa hann.

Hluti af samkomulagi meiri- og minnihluta

Þingflokksformenn ríkisstjórnarflokkanna, VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sendu frá sér yfirlýsingu í dag vegna fundarins í morgun.

Þar segir:

„Formennska í umhverfis- og samgöngunefnd er hluti af samkomulagi milli meirihluta og minnihluta. Samkvæmt samkomulagi þingflokksformanna í kjölfar þingkosninga 2017 féll formennska í þremur nefndum í skaut stjórnarandstöðuflokka og formennska í fimm nefndum í skaut stjórnarflokkanna. Það er á forræði þingflokksformanna ef breyta á samkomulaginu og hafa þannig áhrif á nefndarformennsku.“

Undir þetta skrifa þingflokksformenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.